Yfir hundrað landanir á dag þegar best lætur

Deila:

„Það er oft mikið um að vera og skemmtilegt meðan strandveiðitímabilið stendur yfir,“ segir Björn Arnaldsson hafnarstjóri hjá Hafnarsjóði Snæfellsbæjar en sjóðurinn á og rekur þrjár hafnir; Ólafsvíkurhöfn, Rifshöfn og Arnarstapahöfn. Hann á auk þess hafnarmannvirki á Búðum og Hellnum.

Björn segir sjávarútveg burðarstoð í atvinnulífi Snæfellsbæjar, útgerð sé mjög öflug, hjá stórum bátum sem smáum.
Smábátaútgerð hafi alla tíð verið mikil á svæðinu og hin síðari ár hafi bátarnir stækkað og þeir orðið öflugri. „Heimamenn stunda strandveiðar í þó nokkrum mæli en svo koma til okkar sjó menn víða að af landinu, því það er mjög vinsælt að gera út á strandveiðar héðan.
Stundum eru á sumrin yfir hundrað bátar að landa í höfnunum okkar þremur þegar mest er. Ég man daga þar sem voru um 40 bátar að landa í hverri höfn á einum og sama deginum í þessum þremur höfnum. Það var mikil og góð stemmning,“ segir Björn.

Nálægð við góð fiskimið Hann segir að nálægð við góð fiskimið geri að verkum að aðkomubátar sæki í að gera út frá höfnum í Snæfellsbæ og
þeir auki umsvif hafnanna óneitanlega talsvert auk þess sem fjöldi fólks bætist við bæjarfélagið sem nýti sér þjónustu sem þar er í boði.
Fiskimiðin og nálægð við þau sé ein skýring en einnig hafi í gegnum árin verið kappkostað að byggja upp góða aðstöðu við hafnirnar og bjóða upp á hátt þjónustustig. Það kunni sjómenn að meta og skipti máli þegar þeir velja sér hafnir til að gera út frá til strandveiða. „Það er sem betur fer mikið um að vera hjá okkur allt árið um kring.“

Ítarlegri umfjöllun er að finna í Ægi

Deila: