Gamla höfnin 100 ára
Nú eru liðin 100 ár frá því að Gamla höfnin var formlega tekin í notkun. Hafnargerðin byrjaði 8. mars 1913 og lauk 16. nóvember 1917. Hafnargerðin markaði tímamót fyrir uppgang þjóðarinnar og var hún mikil lyftistöng fyrir höfuðborgina. Það má í rauninni segja að hafnargerðin var mikið stórvirki á íslenskan mælikvarða en réttu verkfærin skorti. Frá þessu er sagt á heimasíðu Faxaflóahafna.
„Fluttar voru inn tvær eimreiðar ásamt miklum gufukrana til að vinna grjót úr Öskjuhlíð. Grjótið var flutt með lestum niður á Granda og Ingólfsgarð, þar sem það var höggvið til af verkamönnum sem lögðu á sig ótrúlegt erfiði við hleðslu varnargarðanna. Ekki var mikið umleikis í atvinnulífi Reykvíkinga á þessum árum og varð hafnarvinnan því mikilvægur þáttur í bæjarlífinu þar sem Dagsbrún gerði sína fyrstu kjarasamninga vegna hafnarvinnunnar,“ segir Gísli Gíslason hafnarstjóri um ógnarstórt mannvirkið sem margir efuðust um í fyrstu en hefur alla tíð sýnt að margborgaði sig.
Minningarnar eru mikilvægt að varðveita og þótt hlutverk hafnarinnar breytist má mikilvægi hennar ekki minnka, segir Gísli. „Hafnarlíf í miðri höfuðborginni er einstakt og heillandi. Í gamla daga var hafnarrúnturinn sjálfsagður hluti af lífinu en nú hefur hann vaknað að nýju eftir að Faxaflóahafnir sf. opnuðu svæði hafnarinnar sem er eðlilegt að almenningur hafi aðgang að. Önnur svæði þurfa að vera lokuð út frá hinni hörðu hafnarstarfsemi sem þar fer fram. Á sjó og landi er höfnin stór þáttur í bæjarlífinu en til að halda sjarmanum þurfum við að vanda okkur með þróun hafnarinnar til lengri tíma.