Útflutningsverðmæti þorsks yfir 100 milljarðar

Deila:

Ísland hefur fest sig í sessi á meðal fremstu fiskveiðiþjóða heims og er nú í 19. sæti yfir stærstu fiskveiðiþjóðir í heimi. Skilar greinin næst mestum útflutningsverðmætum inn í íslenskt þjóðarbú og er rótgróinn þáttur í menningu lands og atvinnulífi. „Út frá þessum mælikvörðum og fleiri er staða íslensks sjávarútvegs sterk og við getum því verið stolt af því að vera ein farsælasta sjávarútvegsþjóð heims,“ segir í inngangi skýrslu Íslandsbanka um sjávarútveg.

„Sjávarútvegsskýrsla Íslandsbanka hefur verið gefin út reglulega síðan árið 2003. Er það ósk okkar að skýrslan gefi bæði beinum og óbeinum hagsmunaaðilum heildstæða mynd af umfangi og áhrifum sjávarútvegarins á íslenskt samfélag. Einnig er okkur umhugað um að auka áhuga almennings á málefnum sjávarútvegarins og er skýrslan því sett fram með eins auðskiljanlegum hætti og kostur er. Eins og síðastliðin ár naut bankinn liðsinnis Deloitte við umfjöllun um rekstur sjárvarútvegsfélaga og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir,“ segir þar ennfremur.

 

Helstu niðurstöður:

 • Við áætlum að útflutningsverðmæti sjávarafurða muni nema 210-220 mö.kr. í ár, sem samsvarar ríflega 7% samdrætti í verðmæti á milli ára. Á komandi ári gerum við síðan ráð fyrir ríflega 4% aukningu útflutningsverðmætis sjávarafurða fyrir tilstilli veikari krónu, hærra heimsmarkaðsverðs og aukins kvóta. Aukningin verður öllu hóflegri árið 2019, eða tæplega 1%, gangi spá okkar eftir.
 • Útflutt magn sjávarafurða á árinu 2016 nam tæpum 580 þús. tonnum og er það um 8,2% lægra en árið 2015 og er 128 þús. tonnum undir langtíma meðaltali. Þessi samdráttur í útflutningi sjávarafurða milli ára skýrist einna helst af minni veiðum.
 • Verðmæti útflutnings á árinu 2016 nam um 232 mö.kr. sem er tæpum 37 mö.kr. minna (14%) en á árinu 2015 miðað við verðlag ársins 2016.
 • Þorskur var verðmætasta útflutningstegundin á árinu 2016 og námu útflutningsverðmæti þorsks 100 mö.kr. á árinu 2016. Nemur það um 43% af útflutningsverðmæti sjávarafurða.
 • Útflutningsverðmæti sjávarafurða nema 20% af gjaldeyristekjum hagkerfisins af vöru- og þjónustuútflutningi.
 • Tekjur sjávarútvegsfélaga á árinu 2016 námu 249 mö.kr. og lækkuðu um 31 ma.kr. á föstu verðlagi eða um 11%. Þróun tekna á árinu 2016 litast af mikilli gengisstyrkingu krónunnar sem átti sér stað á árinu.
 • EBITDA var 56 ma.kr. á árinu 2016 og hefur EBITDA framlegð lækkað um 4 prósentustig frá fyrra ári og fer úr 26% í 22% á árinu 2016.
 • Olíuverð á fyrstu 9 mánuðum ársins hefur verið 15% hærra að meðaltali en á árinu 2016. Þar vegur þó á móti að gengi USD hefur lækkað talsvert á móti öðrum helstu gjaldmiðlum það sem af er ári. Spáð er að meðaltali tæplega 4% hækkun olíuverðs á árinu 2018 og ríflega 2% hækkun á árinu 2019.
 • Frá sumarbyrjun hefur gengi krónu lækkað um nærri 12% m.v. viðskiptavegna körfu gjaldmiðla. Veikingin kemur í kjölfar þess að krónan hafði styrkst um 35% frá miðju ári 2015 til maíloka 2017. Við teljum að gengi krónu verði á svipuðum slóðum á komandi fjórðungum og það hefur að jafnaði verið það sem af er þessu ári.
 • Framlegð sjávarútvegsfélaga í flokki blandaðra uppsjávarog botnfiskfélaga er hæst, eða 27%. Framlegð þessara félaga er hæst þar sem almennt kostar minna að sækja uppsjávarfisk en botnfisk og er vinnsla uppsjávarfisks einnig kostnaðarminni. Framlegð botnfiskútgerðar er 25% og framlegð botnfiskútgerðar og vinnslu er 17%.
 • Opinber gjöld sjávarútvegsfélaga námu um 19,1 mö.kr. á árinu 2016 og lækkuðu um 3,9 ma. kr. frá fyrra ári m.v. verðlag ársins 2016. Þar munar mest á veiðigjöldum sem lækka um 1,2 ma.kr. eða 17%. Tekjuskattur sjávarútvegsfélaga til greiðslu á árinu 2016 var um 7,7 ma.kr. samanborið við 9,5 ma.kr. árið 2015. Áætlað greitt tryggingagjald nam 5 mö.kr. á árinu 2016 sem nemur um 19% lækkun.
 • Fiskeldi hefur vaxið hratt í heiminum síðastliðna áratugi og hefur fiskeldi sexfaldast á tímabilinu 1990-2016. Á árinu 2016 var fiskeldi um 79 milljón tonn. Laxfiskur er stærsta eldistegund í sjó á heimsvísu og er um 59% af heildarfiskeldi.
 • Á árinu 2016 var Asía með um 89% af fiskeldi í heiminum sem nemur 68 milljón tonnum. Á eftir Asíu kemur svo Ameríka (4%), Evrópa (4%) og Afríka (3%). Kína er langstærst fiskeldisþjóða í heiminum með um 62% hlutdeild í fiskeldi á heimsvísu.
 • Útflutningsverðmæti eldisfisks árið 2016 var um 9.618 m. kr. samanborið við 7.144 m. kr. árið 2015 á föstu verðlagi. Bandaríkin eru sem fyrr stærsti markaðurinn fyrir íslenskar eldisafurðir með um 25% af heildarverðmæti ársins 2016. Þýskaland kemur þar á eftir með um 17% og Bretland með um 13%

 

Deila: