Mikil verkefni í Færeyjum og Rússlandi
„Við sjáum fram á mikil verkefni erlendis á næstunni og stærri verkefni í Rússlandi en við höfum áður haft,“ segir Guðmundur Hannesson, markaðsstjóri Kælismiðjunnar Frosts á Akureyri. Starfsmenn fyrirtækisins munu á næstu mánuðum setja upp frystibúnað í nýrri uppsjávarverksmiðju á Þvereyri í Færeyjum og jafnframt er að hefjast undirbúningur á öðru slíku verkefni á Kúrileyjum sem eru austasti hluti Rússlands. Í báðum tilfellum er um að ræða verkefni þar sem að koma nokkur íslensk hátæknifyrirtæki í sjávarútvegi en frá Skaganum 3X á Akranesi kemur allur vinnslubúnaður og rafmagnshlutann annast Rafeyri ehf. á Akureyri.
Byggt upp á Þvereyri eftir bruna
Uppsjávarverksmiðjuna á Þvereyri í Færeyjum má segja að íslensku fyrirtækin séu að byggja í annað sinn á fáum árum en mjög nýleg og tæknivædd verksmiðja brann þar í byrjun júní í fyrra og gjöreyðilagðist. Í framhaldinu var ákveðið að byggja aðra í staðinn og segir Guðmundur að eftir ítarlega skoðun eigenda á öðrum vinnsluaðferðum sem í boði eru hafi verið ákveðið án nokkurs hiks að byggja upp aftur með sömu grunntækninni frá íslensku tæknifyrirtækjunum en meiri afkastagetu en sú fyrri hafði í upphafi. Á meðan nýja byggingin hefur risið hefur smíði á búnaði staðið yfir hér á landi. „Við höfum í þessu verkefni forsmíðað talsvert meira af okkar kerfum í verksmiðjuna hér heima á Akureyri. Með því getum við stytt þann tíma sem við þurfum að hafa mannskap á staðnum en ég reikna með að mannskapur frá okkur fari utan innan skamms til uppsetningar og að verksmiðjan verði komin í gang á fyrri hluta ársins,“ segir Guðmundur.
Starfsmenn yfir hálfan hnöttinn til Kúrileyja
Líkt og komið hefur fram er mikið umrót í rússneskum sjávarútvegi og miklar fjárfestingar framundan í bæði landvinnslu og skipasmíðum. Íslensk þjónustufyrirtæki í greininni hafa kynnt sínar lausnir á þessum markaði að undanförnu og meðal þess sem búið er að semja um er uppsetning á fiskiðjuveri á Kúrileyjum, svipuðu en þó með minni afkastagetu heldur en því sem er í byggingu í Færeyjum. „Þetta er eins austarlega í Rússlandi og komist verður, enda eru Kúrileyjar norður af Japan. Þetta verkefni munum við vinna með sama hætti og verksmiðjuna í Færeyjum, þ.e. forsmíða eins mikið af frystikerfinu og hægt er hér heima. En þetta verður frábrugðið þeim verkefnum sem við erum vanari í Evrópu hvað það varðar að úthaldið verður lengra í einu hjá starfsmönnum vegna þess hversu langt ferðalagið er frá Íslandi.
Til að glöggva sig betur á fjarlægðinni reiknum við með að búnaðurinn verði 45 daga á leiðinni frá Íslandi til Kúrileyja og frá Moskvu er tæplega 10 tíma innanlandsflug til Sjakalín þaðan sem fara þarf með ferju í 18 klukkustundir til að komast á leiðarenda,“ segir Guðmundur en reiknað er með að starfsmenn íslensku fyrirtækjanna í verkefninu fari utan í sumar. Nú þegar hefur þetta verkefni vakið talsverða athygli í Rússlandi og m.a. hefur ríkissjónvarpið í Rússlandi fjallað sérstaklega um það og þá hátækniþekkingu og búnað sem sóttur er alla leið til Íslands.
Frostmark keypt
Guðmundur vonast til að í framhaldinu líti fleiri verkefni í Rússlandi dagsins ljós og segir hann mögulegt að fjölga þurfi starfsmönnum ef það gangi eftir. Hér heima hefur Kælismiðjan Frost enn frekar styrkt stöðu sína á kæli- og frystiþjónustumarkaðnum en nýverið var fyrirtækið Frostmark ehf. keypt og mun að fullu sameinast Frosti um næstu mánaðamót. „Þar erum við að bæta við okkur bæði sérhæfðum starfsmönnum á okkar fagsviði og útvíkka okkar þjónustu enn frekar með traustu og góðu starfsfólki sem hefur starfað um árabil í faginu,“ segir Guðmundur.
Viðtalið birtist fyrst í blaðinu Sóknarfæri sem Athygli gefur út. Blaðið má lesa á slóðinni: https://issuu.com/athygliehf/docs/soknarfaeri_sjavarutv_1tbl_feb_2018?e=2305372/58404210