Aðeins einn frestur veittur
Í reglugerð um lögskráningu sjómanna er sú krafa gerð að eigi megi ráða mann til starfa á íslensku skipi nema að hann hafi sótt námskeið í öryggisfræðslu hjá Slysavarnaskóla sjómanna eða hjá öðrum viðurkenndum aðila.
Í reglugerðinni er að finna heimild Samgöngustofu til að veita sjómanni frest frá því að sækja námskeið í öryggisfræðslu, hafi hann ekki sótt slíkt námskeið áður en hann hafði verið lögskráður á skip í 180 daga, (Frumnámskeið) eða áður en 5 ár voru liðin frá því að hann sótti síðast námskeið í öryggisfræðslu, (Endurmenntunarnámskeið).
Samgöngustofa hefur undanfarin ár viðhaft það verklag að veita sjómanni frest frá því að sækja öryggisfræðslunámskeið í allt að tvö skipti. Fyrsta janúar sl. var verklagi breytt þannig að nú er aðeins veittur einn frestur sem gildir í 3 mánuði.