Standa rétt! Stíga fram!

Deila:

Starfskyldur Landhelgisgæslufólks eru afar margþættar og nauðsynlegt er að rifja þær upp með reglulegu millibili. Stór hluti starfsfólks stofnunarinnar sótti endurmenntunarnámskeið sem haldin voru fyrir skemmstu og sagt er frá á heimasíðu Gæslunnar.

Námskeiðin fóru fram í Reykjavík og Keflavíkurflugvelli en fjölmargir úr starfsliði Landhelgisgæslunnar starfa á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli vegna varnartengdra verkefna. Dagskráin var þéttskipuð, á meðal þess sem farið var yfir voru réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, samskipti við fjölmiðla og framkoma á samfélagsmiðlum, gæðamál, jafnréttismál og siðareglur.

Að margra mati var þó hápunktur endurmenntunarnámskeiðsins sérstök fræðsla um einkennisfatnað og þjónustusiði Landhelgisgæslunnar. Starfsfólk LHG er alla jafna í einkennisfatnaði við störf sín og um hann gilda sérstakar reglur. Þá er nauðsynlegt að kunna góð skil á þjónustusiðunum því Landhelgisgæslufólk kemur fram við ýmis tækifæri þar sem ákveðnar reglur og siðir gilda. Þannig stendur Landhelgisgæslufólk til dæmis heiðursvörð við sjómannadagsmessur ár hvert og tekur þátt í ýmsum viðburðum sem tengjast heimsóknum erlendra strandgæslustofnana eða sjóherja hingað til lands. Við slík tækifæri verður að kunna að standa rétt, ganga í takt og heilsa eins og skyldan býður.

Það er skemmst frá því að segja að allir sem sóttu endurmenntunarnámskeiðin útskrifuðust með láði enda þurfi enginn að þreyta próf úr því sem kennt var. Markmiðið með námskeiðunum var ekki síður að efla liðsandann en skerpa á þekkingu starfsfólksins. Fleiri námskeið eru svo fyrirhuguð á nýárinu.

Deila: