Rafvæðing fiskiskipa nær en flestir halda

Deila:

„Með þessum styrk hefur verkefnið fengið byr undir báða vængi hjá okkur og hann gerir okkur kleift að fullhanna á næstu tveimur árum tvinn-bát og smíða í framhaldinu frumgerð. Við erum að horfa til bátsgerðar sem gæti nýst í tvennum tilgangi; annars vegar sem línubátur og hins vegar sem hvalaskoðunarbátur.

Hugmyndin er að í bátnum verði bæði rafhlöður og vélbúnaður sem brennir eldneyti en miðað við þann hraða sem er í þróun á rafhlöðutækni fyrir t.d. bíla þá spái ég því að það styttist mjög í að við sjáum fiskiskip sem eingöngu verða knúin rafmagni. Rafvæðing skipa er nær okkur en flestir hafa talið. Að því leyti til er alveg það sama að gerast í skipunum eins og á sínum tíma þegar rafmagnsbílarnir komu fyrst fram á sjónarsviðið,“ segir Bjarni Hjartarson, hönnuður hjá Navis ehf. en fyrir skömmu fékk fyrirtækið styrk frá Tækniþróunarsjóði til hönnunar á tvinnbáti og undirbúningi á smíði frumgerðar.

Navis rafbátur hybridTilvalin tækni í hvalaskoðunina og styttri róðra

„Í hvalaskoðun teljum við að hægt sé að horfa til þess að vera með bát af þessari gerð eingöngu keyrðan á rafmagni enda stuttir túrar og hægt að fullhlaða í landi. Brunahreyfill engu að síður til staðar, öryggisins vegna. Aftur á móti hugsum við línubátinn þannig að hann sigli á miðin með brunahreyfli en á meðan á veiðinni stendur, sem er meirihluti veiðiferðarinnar, sé báturinn knúinn rafmagni. Þetta þýðir að báturinn fer með rafhlöðurnar fullhlaðnar frá bryggju og á landleiðinni byrjar brunahreyfillinn að hlaða inn á þær aftur eftir notkun á meðan á veiðum stendur. Við munum einnig skoða möguleikann á að keyra brunahreyflana á metanóli og þá yrðu þeir umhverfisvænni og keyra eingöngu á innlendum orkugjöfum,“ segir Bjarni og vitanlega er þetta umtalsverð breyting frá því sem þekkt er í dag. Veiðarnar verða nánast hljóðlausar, enginn titringur frá aðalvél né heldur útblástur.

Rafhlöðurnar hluti af ballestinni

Bjarni segir mjög hraða þróun í rafhlöðuframleiðslu, líkt og eigendur á símum og fartölvum finna fyrir. Hún birtist með áberandi hætti í bílaframleiðslunni þar sem langdrægni á rafmagni verður meiri með hverju árinu. Því segir hann hugmyndina hjá þeim Navismönnum að hanna þessa nýju gerð báta út frá því að þeir geti að öllu leyti orðið rafmagnsknúnir. Og sú framtíð er að hans mati ekki fjarlæg. „Rafhlöður taka talsvert rými um borð en í öllum skipum þarf að vera ballest og okkar hugmynd er sú að rafhlöðurnar verði hluti af henni. Þannig þyngi rafhlöðurnar ekki bátana frá því sem nú er en þetta er eitt af því sem liggur fyrir að þróa í þeirri vinnu sem framundan er hjá okkur. Sama má segja um spurninguna um endingu á rafhlöðum en þær eru í minni einingum sem hægt er að skipta út ef á þarf að halda. Eins og við þekkjum úr tækjanotkuninni þá er rafhlöðuending að aukast og það á með sama hætti við um rafhlöður sem knýja skip og báta. Við erum að tala um margra ára endingu rafhlaðna í skipum. Það er nokkuð víst. Og rafhlöður verða stöðugt ódýrari,“ segir Bjarni.

Rekstrarsparnaður vinnur fljótt hærri stofnkostnað upp

Standi t.d. útgerð frammi fyrir valmöguleikum á smíði línubáts á annars vegar hefðbundinni eldsneytisbrennslu og hins vegar tvinntækni eða jafnvel algjörlega rafknúnum báti, líkt og mun koma í fyrirsjáanlegri framtíð, þá segir Bjarni vafalítið að stofnkostnaður rafdrifinna báta sé meiri.

„Hins vegar er enginn vafi að rekstrarsparnaðurinn verður fljótur að greiða þann mismun upp. Og þá er ótalinn umhverfislegi þátturinn. Sparnaðurinn yrði auðvitað mestur þar sem hægt væri að nota rafmagnið eingöngu, líkt og í t.d. útgerð hvalaskoðunarbáta. Ég hef trú á því að við sjáum fljótlega stærri skip búin tvinn-tækninni og á einhverjum tímapunti verði þau einnig alfarið knúin rafmagni. Þetta þýðir að ýmislegt breytist um borð; vélarrúmin verða talsvert frábrugðin því sem er í dag, það þarf að koma rafhlöðunum fyrir en aftur á móti hverfur ýmislegt sem tilheyrir brunahreyflunum. Og þetta verða hljóðlaus skip, titringurinn hverfur og margt vinnst,“ segir Bjarni og bendir á að nú þegar séu margar ferjur í heiminum rafmagnsknúnar, til eru flutningaskip með þessari tækni og þannig má áfram telja. „Með örari þróun í rafhlöðum munum við sjá þetta færast yfir í fiskiskipin líka. Þetta er spennandi þróun og við hjá Navis fögnum því mjög að Tækniþróunarsjóður geri okkur kleift að fara í þetta þróunarverkefni af fullum krafti,“ segir hann.

Viðtalið birtist fyrst í blaðinu Sóknarfæri sem Athygli gefur út. Blaðið má lesa á slóðinni: https://issuu.com/athygliehf/docs/soknarfaeri_sjavarutv_1tbl_feb_2018?e=2305372/58404210

 

Deila: