Rétt brugðist við

Deila:

Matvælastofnun barst tilkynning frá Arnarlaxi hf. um tjón á tveimur sjókvíum fyrirtækisins á Vestfjörðum í byrjun síðustu viku. Álit stofnunarinnar út frá þeim gögnum og ljósmyndum sem hún hefur fengið frá Arnarlaxi er að fyrirtækið hafi brugðist rétt við til að fyrirbyggja frekara tjón. Jafnframt telur Matvælastofnun að litlar líkur séu á að fiskur hafi sloppið úr sjókvíum fyrirtækisins. Ófært var um Vestfirði stóran hluta fyrri viku, bæði landleiðina og í lofti og aðstæður til eftirlits slæmar, en Matvælastofnun mun fara í eftirlit hjá Arnarlaxi um leið og veður leyfir og gera frekari úttekt á sjókvíunum og viðbrögðum fyrirtækisins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Matvælastofnun, en þar segir ennfremur:

„Mánudaginn 12. febrúar 2018 barst Matvælastofnun tilkynning frá Arnarlaxi hf. um að tjón hefði orðið daginn áður á tveimur sjókvíum fyrirtækisins, annarri í Tálknafirði og hinni í Arnarfirði. Morguninn eftir, á þriðjudag, barst ný tilkynning frá fyrirtækinu um viðbrögð sem voru köfunareftirlit og viðgerðir á báðum sjókvíum og flutningur fiska úr sjókvínni í Tálknafirði. Þau gögn og samskipti milli fyrirtækisins og stofnunarinnar bentu ekki til annars en að Arnarlax hefði gripið til viðeigandi ráðstafana til að fyrirbyggja frekara tjón.

Á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga og mati á aðstæðum telur Matvælastofnun ekki líklegt að fiskur hafi sloppið úr kví sem varð fyrir tjóni í Tálknafirði og hefur fiskur sem þar var verið fluttur í aðrar kvíar. Matvælastofnun hefur einnig haft til skoðunar skýrslu um viðbrögð við tjóni á sjókví í Arnarfirði og skýrslu köfunarþjónustu frá skoðun og viðgerð á götum ofarlega í nótarpoka í kvínni, sama dag og tjón kom í ljós. Með köfunarskýrslunni sem er dagsett 12. febrúar fylgdu einnig myndir af götum fyrir og eftir viðgerð. Einnig hefur borist mat á stærð gata í nótarpokanum.

Samkvæmt upplýsingum frá Arnarlaxi fundust skemmdir á nótinni í kvínni í Arnarfirði þar sem hún hékk á krókum á handriði kvíarinnar, þegar stormur gekk yfir. Um sláturkví er að ræða og þegar tjón kom í ljós var nótarpokanum slakað niður af krókunum til viðgerðar af hálfu kafara. Stærstu götin á nótarpokanum voru því ekki í sjó þegar slysið varð.

Álit Matvælastofnunar út frá þessum gögnum, ljósmyndum og lýsingum kafara, er að litlar líkur séu á að fiskar hafi sloppið úr sjókví fyrirtækisins í Arnarfirði áður en viðgerð fór fram. Fyrirtækið hefur einnig upplýst að ekki væri grunur um sleppingu úr sjókvínni þar sem göt við yfirborð sjávar hafi verið lítil og lax haldi sig neðarlega í kvíum á þessum árstíma og í vondum veðrum.

Fiskistofu var einnig tilkynnt um tjón fyrirtækisins og gögn málsins hafa verið send til Fiskistofu, sem fer með mál vegna slysasleppinga.

Matvælastofnun telur út frá fyrirliggjandi gögnum að Arnarlax hafi brugðist hratt og rétt við tjóni á kvíum og að litlar líkur séu á að eldisfiskur hafi sloppið úr sjókvíum fyrirtækisins áður en unnt var að grípa til fyrirbyggjandi ráðstafana. Stofnunin fer í eftirlit hjá Arnarlaxi við fyrsta tækifæri og gerir frekari úttekt á sjókvíunum og viðbrögðum fyrirtækisins. Arnarlax hefur einnig upplýst að óháð úttekt verði gerð á sjókvínni sem varð fyrir tjóni í Tálknafirði, sem nú hefur verið tæmd.“

Deila: