„Ég er fæddur og uppalinn við línukrókinn“

Deila:

„Áhöfnin er góð og útgerðin líka. Þetta eru góðir kallar. Það þarf allt að haldast í hendur svo vel gangi,“ segir Grindvíkingurinn Andrés Pétursson, annar tveggja skipstjóra á línubátnum Hafrafelli SU 65. Báturinn er í eigu dótturfélags Loðnuvinnslunnar á Fsskrúðsfirði.

Hafrafellið var aflahæsti krókabáturinn á fiskveiðiárinu 2022/2023 með 2.509 tonn. Sérstaka athygli vekur að báturinn er ekki nema 29 brúttótonn og 13 og hálfur metri að lengd. Landssamband smábátaeigenda vakti athygli á því í haust að krókaaflamarksbátur hafi aldrei borið meira afla að landi á einu fiskveiðiári. Þetta sé því Íslandsmet.

Á bátnum eru tvær fjögurra manna áhafnir. Hvor áhöfn rær í tvær vikur í senn en á móti Andrési er Ólafur Svanur Ingimundarson skipstjóri. Andrés, sem er 46 ára, hefur verið á Hafrafellinu frá árinu 2019 en áður var hann skipstjóri á Hafdísi, sem var í eigu Eskju. „Ég er búinn að vera á sjó í 30 ár. Ég er fæddur og uppalinn við línukrókinn.“

Andrés vill ekki meina að skipstjórarnir á Hafrafelli búi yfir neinu sérstöku leyndarmáli. Þeir beiti t.d. yfirleitt síld en smokkfisk inn á milli. „Ég læt strákana bóna krókana af og til,“ segir hann og hlær en bætir við: „Nei nei, það hefur bara verið góð veiði heilt yfir. Við vissum ekkert af því sjálfir að við vær um að slá eitthvað met.“ Hann viðurkennir þó, þegar á hann er gengið, að það sé gaman að hafa sett aflamet. „Þetta er helvíti gaman – alltaf gaman að vera á toppnum. En það var ekkert kapp í okkur á árinu, þetta bara kom.“

Nánar er rætt við Andrés í nýútkomnum Ægi.

Deila: