Skipamódelin varðveita söguna

Deila:

Bílskúr við nærfellt 90 ára gamalt hús við Karlsbraut á Dalvík er ekki allur þar sem hann er séður og í það minnsta hvarflar að fáum að þarna sé afkastamesta skipasmíðastöð í nýsmíðum skipa á Íslandi nú um stundir. En sú er nú samt raunin. Skipin eru að vísu ekki fullvaxin heldur haganlega smíðuð módel af höndum Dalvíkingsins Elvars Þórs Antonssonar. Líkt og margir drengir í sjávarplássum fékk hann skipaáhuga í barnæsku, varð síðan togarasjómaður og svo kviknaði löngunin til að gera tilraun með smíði á skipamódeli. Sem tókst ekki verr en svo að nú eru skipamódelin að nálgast þrjá tugina sem Elvar hefur smíðað og í stað þess að módelsmíðin sé hóbbí þá er hún nú orðin hans aðal starf. Að komast í þá stöðu var einn af fjarlægum draumum Elvars þegar hann heillaðist af módelsmíðinni og reyndar átti hann strax drauma um að gera módel af ákveðnum skipum sem eru líka draumar sem rættust. Enn segist hann samt semáður hafa augastað á skipum sem gaman væri að gera módel af.

Áhugamálið varð á endanum að aðalstarfi

„Fyrir utan þau hartnær 30 módel sem ég hef smíðað í gegnum tíðina þá hef ég gert við mikinn fjölda alls kyns módela sem fólk hefur komið með til mín,“ segir Elvar þegar tekið er hús á honum á verkstæðinu. Og vitanlega blasir við módel af sögufrægum skuttogurum Íslendinga á vinnuborði Elvars, nákvæm eftirmynd systurskipa Útgerðarfélags Akureyringa, Kaldbaks EA 1 og Harðbaks EA 3. Fullgert mun módelið bera nöfn togaranna á hvorri síðunni. „Mig óraði aldrei fyrir því að þetta áhugamál mitt yrði einn góðan veðurdag að mínu aðal starfi en svo gerðist það rétt upp úr 1990 að Óskar Þór Halldórsson, þáverandi fréttamaður á Stöð 2 tók við mig viðtal sem birtist í Íslandi í dag. Í stuttu máli má segja að í kjölfarið hafi síminn minn farið alveg á hliðina. Þessi viðbrögð urðu til þess að ég fór að gæla við hversu skemmtilegt það gæti orðið þegar um færi að hægjast á síðari hluta starfsævinnar að geta helgað mig módelsmíðinnni. Sá tími er akkúrat kominn í dag. Hingað á verkstæðið mæti ég klukkan átta á morgnana og vinn hér fullan vinnudag,“ segir Elvar Þór en aðspurður segir hann að smíði eins skipsmódels taki 3-4 mánuði að jafnaði.

Nánar er rætt við Elvar í Ægi.

Deila: