Viljum ekki stríð
Við viljum ekki vera í stríði á meðan við byggjum upp þessa grein, segir forstjóri fiskeldisfyrirtækisins Arnarlax í samtali við ruv.is. Sjávarútvegsráðherra er meðal þeirra sem hafa gagnrýnt áform fyrirtækisins um laxeldi í Jökulfjörðum.
Spyrjandi yfir eldi á ósnortnu svæði
Fiskeldisfyrirtækið Arnarlax hefur tilkynnt til Skipulagsstofnunar áform um 10.000 tonna laxeldi í Jökulfjörðum. Umhverfismat er ekki hafið en áformin hafa mætt nokkurri andstöðu og sjávarútvegsráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sagði í Kastljósi í gær að mikilvægt væri að fiskeldisfyrirtækin kynnu sér hófs, eins og á stöðum sem eru enn ósnortnir: „Af hverju eru menn að sækja um á Jökulfjörðunum? Bara til að eigna sér staðinn mér finnst það ekki rétt. Mér finnst það ekki siðferðislega rétt fyrir utan það að ég held að Jökulfirðirnir séu ákveðinn fjársjóður fyrir Vestfirðinga varðandi ferðaþjónustuna.“
Vilja sátt um greinina
Kristian Matthíasson, forstjóri Arnarlax, segir að Jökulfirðirnir séu frábært svæði fyrir fiskeldi en að það séu engin fagleg rök fyrir því að fyrirtækið ætti ekki að vera með fiskeldi þar: „En við erum tilbúnir til að setjast niður og ræða við ráðherra, sveitarfélagið, okkar grein og aðra til að finna bestu lausnina og lausn sem að allir geta lifað við. Við viljum ekki vera í stríði aðra á meðan við erum að byggja upp þessa grein og það er mikilvægt fyrir okkur líka að fá ró og sátt um það sem við erum að gera.“