Vinda þarf ofan af óæskilegum loftlagsbreytingum

Deila:

„Þó nokkur framþróun hefur verið í sjávarútvegi varðand minnkun umhverfisáhrifa. Með nýrri tækni og auknu samráði aukast tækifærin enn frekar. Mikilvægt er að sjávarútvegurinn og hagsmunaaðilar leggi sitt af mörkum til að vinda ofan af óæskilegum loftslagsbreytingum,“ segir Svavar Svavarsson framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá HB Granda.

Þetta sagði Svavar á opnum fundi um loftslagsmál undir forystu stofnunarinnar Hafið – Öndvegissetur um sjálfbæra nýtingu og verndun hafsins í Marshall húsinu í gær. Rætt var um áskoranir og tækifæri í sjávarútvegi.

HB Grandi er einn af samstarfsaðilum Hafsins og viðburðurinn var haldinn í Marshallhúsinu sem er í eigu HB Granda, en húsið var opnað nú á dögunum á ný sem glæsileg listamiðstöð og veitingastaður. Fulltrúar frá HB Granda mættu til áheyrnar ásamt fjölda annarra áhugasamra frá fyrirtækjum og stofnunum.

Björt Ólafsdóttir – Umhverfis og auðlindaráðherra flutti opnunarerindi en aðrir frummælendur voru Gísli Gíslason, hafnarstjóri Faxaflóahafna, Jón Ágúst Þorsteinsson, formaður stjórnar Hafsins, Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar og Hallveig Ólafsdóttir, hagfræðingur Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi. Fundarstjóri var Sigríður Ragna Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Hafsins.

 

Deila: