Engin eldiskví hefur sokkið hjá Arnarlaxi

Deila:

Við reglulegt eftirlit á laxeldiskvíum í Tálknafirði kom í ljós bilun á búnaði í einni kví í síðustu viku. Í kjölfarið voru settar í gang viðbragsáætlanir til að lágmarka afleiðingar bilunar bæði á fisk og búnað. Þetta kemur fram í frétt á heimasíðu Landssambands fiskeldisstöðva. Þar segir ennfremur:

„Vegna óhagkvæmra veðurspáa var strax tekin ákvörðun um að dæla öllum fiski úr kvínni og tryggja þannig hámarks öryggi aðgerða vegna bilunar á henni. Bilunin fólst í því að einn af flothringum kvíarinnar brotnaði, engin net rofnuðu og aldrei skapaðist hætta á að fiskur slyppi.

Fréttir um að kvíin hafi sokkið eru rangar og kvíin hefur nú verið tæmd en flýtur nú sem fyrr. Aldrei var ástæða til að ætla að kvíin myndi sökkva. Hinsvegar var ákveðið að virkja hæsta stig viðbragsáætlana vegna óhagkvæmra veðurspáa og dæla öllum fiski þegar í stað úr kvínni.

Tæming á kvínni gekk vel og verður hún dregin á land við fyrsta tækifæri þar sem rannsakaðar verða ástæður bilunar og ljóst er að hún verður ekki notuð aftur. Tjón Arnarlax hf vegna atviksins er óljóst en verður metið á næstu dögum.

Vegna skjótra og faglegra viðbragða vel þjálfaðra starfsmanna skapaðist aldrei hætta á sleppingum og allt gekk upp samkvæmt fyrirfram skilgreindum viðbragðsáætlunum. Atvikið var tilkynnt til Fiskistofu og Matvælastofnun og þeim haldið upplýstum um stöðu mála á meðan aðgerðir áttu sér stað.“

 

Deila: