750.000 laxar drápust hjá Bakkafrosti

Deila:

750 laxar drápust í eldiskvíum færeyska fiskeldisfyrirtækisins Bakkafrosts í lok síðustu viku. Fiskurinn var ungur, um 500 grömm að þyngd að meðaltali og drapst hann allur á nokkrum klukkustundum. Seiðin voru sett út á tímabilinu júní til ágúst í kvíar við Kolbanagjógv.

Ekki liggur fyrir hvers vegna laxinn hefur drepist en þörungablómi er talinn mögulegur orsakavaldur. Þá er einnig vitað að miklu magni af mykju var dreift á tún rétt fyrir atburðinn og fór eitthvað af henni í sjóinn aðeins um 200 metra frá eldiskvíunum.

Fiskur hefur verið alinn á þessu svæði undanfarin 30 ár og ekkert þessu líkt hefur gerst þar áður og samskonar tilfella hefur ekki orðið var á öðrum eldissvæðum síðustu dagana.

Lokið verður við að hreinsa dauða fiskinn úr kvíunum í dag, en fiskurinn var tryggður.

Deila: