1.400 tonn af hvalkjöti til Japans
Flutningaskipið Winter Bay fór frá Hafnarfirði 17. ágúst með um 1.400 tonn af hvalaafurðum áleiðis til Osaka í Japan. Skipið mun sigla norðausturleiðina og er reiknað með að það komi á áfangastað í kringum 17. september. „Þetta er kjöt, spik, rengi, tunga og fleira,“ sagði Kristján Loftsson, framkvæmdastjóri Hvals hf. í samtali við Morgunblaðið.
„Við vorum búnir að framleiða þetta fyrir Japan. Það var ekkert annað að gera en að koma þessu þangað. Svo sjáum við til hvernig spilast úr markaðnum.“
Kristján sagði að norðausturleiðin til Osaka væri um 8.000 sjómílum (14.800 km) styttri en ef siglt væri suður fyrir Suður-Afríku. Norðausturleiðin er íslaus og verður það fram á haustið. Þetta er í þriðja sinn sem skipið siglir með afurðir Hvals hf. norðausturleiðina. Kristján sagði að heldur hefði dregið úr eftirspurn eftir hvalaafurðum í Japan.
Hvalur hf. hefur nú sent úr landi nær allt sem fyrirtækið átti hér af frystum hvalaafurðum. Kristján sagði að nóg væri til af rengi sem landsmenn gætu gætt sér á á þorranum í vetur. Langreyðar voru síðast veiddar hér við land sumarið 2015. Stórhveli voru einnig veidd 2103 og 2014 en engar veiðar voru 2011 og 2012. Kristján sagði að ekkert hefði enn verið ákveðið um hvort langreyður yrði veidd næsta sumar. Hafrannsóknastofnun hefur lagt til að árlega verði veiddar 209 langreyðar á ári á tímabilinu 2018-2025. Þar af verði 161 dýr veitt vestan við Ísland og 48 austan við landið.