Drangey SK fagnað í heimahöfn á Sauðárkróki

Deila:

 

Fjölmenni var á hafnarbakkanum á Sauðarkróki laust eftir hádegi á laugardaginn þegar nýr togari FISK Seafood, Drangey SK 2, lagðist að bryggju eftir tæplega tveggja vikna siglingu frá Tyrklandi. Liðin eru 44 ár frá því síðast var tekið á móti nýju skipi á Sauðárkróki en Drangey SK mun leysa ísfisktogarann Klakk SK af hólmi. Vonast er til að fyrsta veiðiferð Drangeyjar verði farin fyrir árslok en nú tekur við niðursetning fiskvinnslubúnaðar í skipið. Það verkefni verður unnið af Skaganum 3X og verður skipinu fljótlega siglt til Akraness þar sem búnaðurinn verður settur um borð.

 

Mikill fjöldi fólks fagnaði Drangey í sérstakri móttöku á laugardaginn.

Mikill fjöldi fólks fagnaði Drangey í sérstakri móttöku á laugardaginn.

Rúmar 225 tonn í lest

Drangey SK 2 er þriðji af fjórum samskonar ísfisktogurum sem koma hingað til lands á þessu ári frá Cemre skipasmíðastöðinni í Póllandi. FISK Seafood hf. og Samherji hf. höfðu samstarf í þessu verkefni en þrjú skipanna eru smíðuð fyrir Samherja Ísland og Útgerðarfélag Akureyringa. Fyrst kom Kaldbakur EA síðla vetrar, þá Björgúlfur EA í byrjun sumars og síðasta skipið er Björg EA sem væntanleg er í árslok.

Skipin eru hönnun Bárðar Hafsteinssonar, skipaverkfræðings hjá Verkfræðistofunni Skipatækni. Drangey SK er 62,5 metra langt skip og 13,5 metra breitt. Skipið er skráð 2081 brúttótonn og hefur 14 hnúta siglingahraða að hámarki. Það er búið Yanmar aðalvél sem Marás ehf. hefur umboð fyrir hér á landi. Hún skilar 1620 kW afli við 750 snúninga og getur bæði keyrt á svartolíu og gasolíu. Skrúfa skipsins er 3,8 m í þvermál og er skipið búið kerfum sem reikna út bestu nýtingu orku hvort heldur það er á veiðum eða siglingu.

Allar vindur skipsins eru knúnar með rafmagni og koma frá norska framleiðandanum Seaonics. Togafl skipsins er 40 tonn. Í lest rúmar það 225 tonn af fiski en lestin er tæplega 1000 rúmmetrar að stærð. Í henni er ný gerð af krana sem gengur á brautum í lestarloftinu, nokkurs konar hlaupaköttur. Þessi búnaður er notaður til að raða fiskikerum í lestina en hann er hollenskur að uppruna og er ný tækni í lestum fiskiskipa.

Í brú skipsins er m.a. svokallaður skjáveggur sem þar sem skipstjóri getur verið með samtímis alla helstu upplýsingaglugga úr siglinga- og fiskileitarbúnaði skipsins. Þessi tækni er frá fyrirtækjunum Brimrún ehf. og Nordata ehf.

Hæstánægður skipstjóri

Í Drangey SK verður vinnslubúnaður frá Skaganum 3X, svokölluð ofurkæling sem byggist á að fiskurinn er kældur niður í mínus 0,1 gráðu áður en hann fer í lest. Þetta er í grunninn samskonar tækni og FISK Seafood hafði frumkvæði að þegar fyrirtækið breytti frystitogaranum Málmey SK í ísfisktogara fyrir tveimur árum en auk ofurkælingarinnar er í vinnslulínunni myndgreiningarbúnaður til að greina tegundir og stærð og eftir því er fiskurinn flokkaður fyrir kælingu. Fiskurinn verður settur í kör á vinnsluþilfarinu og fer þaðan með lyftubúnaði niður í lest.

Snorri Snorrason verður skipstjóri á Drangey, en hann hefur verið með annað skip Fisk Seafood, Klakk.

Snorri Snorrason verður skipstjóri á Drangey, en hann hefur verið með annað skip Fisk Seafood, Klakk.

Snorri Snorrason, skipstjóri á Drangey SK, er hæstánægður með skipið. „Þetta er frábært skip og reyndist mjög vel á heimleiðinni og þetta er vægast sagt mikil bylting fyrir okkur frá gamla Klakk. Ég vonast til að fara í fyrstu prufutúra undir lok ársins og hlakka mikið til þess,“ segir hann.

Myndir og texti: Jóhann Ólafur Halldórsson.

 

Deila: