Hæstiréttur vísar máli Brims gegn VSV frá dómi
Hæstiréttur hefur staðfest þá niðurstöðu Héraðsdóms Suðurlands að vísa frá dómi máli sem Brim hf. höfðaði gegn Vinnslustöðinni til ómerkingar stjórnarkjöri á aðalfundi og hluthafafundi VSV á árinu 2016. Brim er dæmt til að greiða 350.000 í málskostnað.
Málið dæmdu hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Helgi I. Jónsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Héraðsdómur Suðurlands kvað upp úrskurð sinn 12. júní 2017 og lét málskostnað niður falla. Hæstiréttur staðfesti nú úrskurðinn en dæmdi Brim hins vegar til að greiða málskostnað.
Brim, sem á tæplega 33% hlut í Vinnslustöðinni, krafðist þess í fyrsta lagi að ómerkt yrði kjör Einars Þórs Sverrissonar; Guðmundar Arnar Gunnarssonar, Ingvars Eyfjörð; Írisar Róbertsdóttur og Rutar Haraldsdóttur í stjórn og kjör Eyjólfs Guðjónssonar og Guðmundu Bjarnadóttur í varastjórn, sem fram fór á hluthafafundi VSV 31. ágúst 2016.
Í öðru lagi að ómerkt kjör Einars Þórs Sverrissonar; Guðmundar Arnar Gunnarssonar; Ingvars Eyfjörð; Írisar Róbertsdóttur og Rutar Haraldsdóttur í stjórn og kjör Eyjólfs Guðjónssonar og Guðmundu Bjarnadóttur í varastjórn, sem fram fór á aðalfundi stefnda þann 6. júlí 2016.
Í þriðja lagi að staðfest yrði með dómi að eftirtalin hefðu verið verið réttkjörin í stjórn og varastjórn félagsins á aðalfundi félagsins þann 6. júlí 2016.
Í stjórn:
- Guðmundur Kristjánsson
- Ingvar Eyfjörð
- Íris Róbertsdóttir
- Rut Haraldsdóttir.
Í varastjórn:
- Hjálmar Kristjánsson
- Guðmunda Bjarnadóttir.
Þá var og þess krafist að viðurkennt yrði með dómi að VSV bæri skylda til að boða til framhaldsfundar til að varpa hlutkesti um það hvort Einar Þór Sverrisson eða Guðmundur Örn Gunnarsson taki sæti í stjórn félagsins ásamt áðurnefndum aðilum.
Sjá nánar á heimasíðu VSV http://www.vsv.is/is/frettir/nyjar-frettir/haestirettur-visar-mali-brims-gegn-vinnslustodinni-fra-domi