Umtalsverðar breytingar á útbreiðslu dýrasvifs

Deila:

Á hafsvæðum umhverfis Ísland mætast Mið-Atlantshafshryggurinn og Grænlands-Skotlandshryggurinn skammt sunnan við heimsskautsbaug. Þessi hafsvæði verða fyrir sterkum áhrifum úthafsins og þar mætast hafstraumar af ólíkum uppruna. Hlutfallslega hlýr og saltur Atlantssjór kemur upp að landinu sunnanverðu og streymir þaðan annars vegar austur fyrir land í Noregshaf og hins vegar vestur fyrir land á landgrunnssvæði norður af landinu.

Með Austur-Grænlandsstraumi og Austur-Íslandsstraumi berst kaldur og seltulítill sjór úr Grænlandshafi á hafsvæðin norður og austur af landinu (Unnsteinn Stefánsson 1962; Héðinn Valdimarsson og Svend-Aage Malmberg 1999).

Svæðinu má skipta í fjögur lykilsvæði (1. mynd) sem eru afmörkuð á grundvelli mismunandi botngerðar, sjógerðar og tegundasamsetningar (Ástþór Gíslason og Ólafur S. Ástþórsson 2004):

1. Landgrunnið sunnan og vestan Íslands (að mestu grynnra en 500 m). Að mestu blanda strandsjávar og Atlantssjávar.

2. Landgrunnið norðan og austan Íslands (að mestu grynnra en 500 m). Að mestu blanda strandsjávar, Atlantssjávar og svalsjávar.

3. Suðurdjúp: Utan landgrunnsbrúnar sunnan og vestan Íslands (að mestu dýpra en 500 m). Aðallega

Atlantssjór.

4. Norðurdjúp: Utan landgrunnsbrúnar norðan og austan við Ísland (að mestu dýpra en 500 m). Aðallega svalsjór.

Breytileg staðsetning skila á milli fremur fersks svalsjávar af heimskautauppruna og hlýrri og saltari Atlantssjávar veldur því að staðbundin skilyrði geta verið breytileg, einkum á norðurhluta landgrunnsins. Síðustu tvo áratugi hefur Atlantssjór verið ráðandi gagnstætt því sem var í þrjá áratugi þar á undan.
Töluverðar breytingar hafa orðið á lífríkinu í hafinu umhverfislandið á undanförnum árum vegna hlýnunar. Farið er yfir þessar breytingar í nýrri skýrslu Hafrannsóknastofnunar og eru eftirfarandi breytingar þær helstu:

Töluverðar breytingar

• Lífmassi dýrasvifs á landgrunninu hefur sveiflast umtalsvert síðustu áratugi, en án ákveðinnar leitni í tíma. Frá 2010 hefur lífmassi rauðátu að vori á landgrunninu norðan lands verið minni en meðaltal áranna 1960–2014. Á hafsvæðinu utan landgrunnsins suðvestan, sunnan og suðaustan við Ísland hefur magn ljósátu farið minnkandi síðustu 50 ár, sem hefur aðallega verið tengt við breytileika í frumframleiðni og tímasetningu þörungablóma á vorin (Teresa da Silva Giesta o.fl. 2014).

• Frá árinu 2006 hefur fæðuslóð makríls breiðst út frá Noregshafi á Íslandsmið, á sama tíma og sumarbeitarsvæði loðnu hefur færst í vestur frá Íslandshafi upp að landgrunnskantinum við Austur-Grænland (Ólafur S. Ástþórsson o.fl. 2012, Guðmundur J. Óskarsson o.fl. 2016). Frá aldamótum hefur norsk-íslensk síld fundist í auknum mæli á hefðbundinni fæðuslóð austan og norðan Íslands. Þessar miklu breytingar í göngumynstri uppsjávarstofna hafa verið tengdar við breytilegt fæðuframboð, skilyrði í hafinu og ástand stofna.

• Hækkandi hitastig í neðri lögum sjávar vestan- og norðanvert á íslenska landgrunninu hefur leitt til breytinga á útbreiðslu margra botnfisktegunda. Tegundir sem hafa verið við nyrðri mörk útbreiðslu sinnar á Íslandsmiðum og yfirleitt haldið sig í hlýja sjónum sunnan og vestan við landið, t.d. ýsa, skötuselur, langa, keila, sandkoli og langlúra, hafa stækkað útbreiðslusvæði sitt réttsælis í vestur og norður eftir landgrunninu og á Norðurmið, og í sumum tilfellum hefur útbreiðslusvæðið flust til (Ólafur S. Ástþórsson o.fl. 2007; Jón Sólmundsson o.fl. 2010; Héðinn Valdimarsson o.fl. 2012; Campana o.fl. 2020). Áður sjaldgæfir suðrænir fiskar hafa fundist í auknum mæli á svæðinu á undanförnum árum, en stofnstærð og útbreiðsla ýmissa kaldsjávartegunda hefur minnkað í kjölfar hlýnunar (Héðinn Valdimarsson o.fl. 2012; Jón Sólmundsson o.fl. 2022). Árið 2017 veiddist brislingur í fyrsta skipti á Íslandsmiðum svo vitað sé og hefur hans orðið vart í vaxandi mæli í stofnmælingaleiðöngrum Hafrannsóknastofnunar (Jónbjörn Pálsson o.fl. 2021).

• Stofnar rækju hrundu nálægt síðustu aldamótum og eru aukið afrán af völdum þorsks, hækkandi hitastig og veiðar taldir hafa verið helstu áhrifavaldar (Ingibjörg Jónsdóttir o.fl. 2012).

• Bætt stjórnun veiða á helstu nytjastofnum (þorski, ýsu, ufsa, gullkarfa) hefur stuðlað að lækkun fiskveiðidauða, sem nú nálgast kjörsókn (FMSY), og stækkun hrygningarstofna (SSB).

• Nýliðun margra hlýsjávarstofna hefur minnkað mikið á undanförnum árum. Þannig hefur nýliðum löngu, blálöngu, gullkarfa, djúpkarfa, skötusels, langlúru, stórkjöftu, humars og fleiri tegunda sem að mestu halda sig í hlýjum sjó við suður og vesturströndina verið mjög lítil undanfarin ár. Ástæður fyrir þessari neikvæðu þróun í nýliðun margra stofna eru ekki þekktar en nærtækast er að leita skýringa í breyttum umhverfisskilyrðum í hafinu við Ísland síðastliðin 10–20 ár.

• Hrefnum á íslenska landgrunninu hefur fækkað á undanförnum árum. Breytingin hefur verið tengd breyttri útbreiðslu fremur en minnkandi stofnstærð. Stofnstærð annarra skíðishvala, sérstaklega langreyðar og hnúfubaks, hefur aukist undanfarin 20–30 ár (Gísli Víkingsson o.fl. 2015).

• Landsel við Ísland hefur fækkað um 69 % frá árinu 1980 og útsel hefur fækkað um 30 % frá árinu 1982 (Sandra M. Granquist 2021). Fækkunina má rekja til veiða á þessum tegundum.

Deila: