Sjö milljarða tekjutap?

Deila:

Útflutningstekjur af sjávarafurðum gætu minnkað um sjö milljarða króna. Þetta segir framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi. Með sex prósenta skerðingu sem greint var frá í gær hefur kvótinn verði minnkaður um 23% á þremur árum.  Þetta kemur fram í frétt á ruv.is

Veiðiráðgjöf Hafrannsóknastofnunar hefur tekið nokkrum breytingum síðustu árin. Fiskveiðiárið 2010 til 2011 var lagt til að veidd yrðu 160 þúsund tonn. Kvótinn jókst svo næstu árin og varð mestur fyrir þremur árum rúm 270 þúsund tonn. Heldur dró svo úr og í veiðiráðgjöf Hafrannsóknastofnunar sem gefin var út í dag er lagt til að veitt verði sex prósentum minna en árið áður eða tæp 209 þúsund tonn.

Döpur nýliðun

„Það er döpur nýliðun í mjög mörgum stofnun. Það eru margir góðir punktar á móti. Við sjáum næstum fjórðungs aukningu í ýsu,“ segir Þorsteinn Sigurðsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar. 

„Stærstu tíðindin og auðvitað vonbrigði eru áframhaldandi niðurskurður í þorski,“ segir Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.

Kvótaminnkun jafngildir tæplega 3ja mánaða styttingu veiðitímabils

Heiðrún bendir á að kvótinn hafi verið samtals verið minnkaður um 23 prósent á þremur árum.

„Svo maður setji þetta í svona samhengi þannig að fólk skilji þá eru þetta kannski veiðar í á þriðja mánuð sem er búið að skera niður í þorski á þessum stutta tíma,“ segir Heiðrún.

Hvað er það sem veldur því að það er ekki meiri nýliðun í þorskstofninum en raun ber vitni?

„Satt að segja vitum við það ekki. Við höfum séð mjög stöðuga nýliðun frá í kringum 1990. Það hefur verið til þess að gera lág nýliðun miðað við það sem við sáum á undan,“ segir Bjarki Þór Elvarsson, fagstjóri ráðgjafar hjá Hafrannsóknastofnun.

„Þorskstofninn er mjög sterkur í dag. Þrátt fyrir þessa lækkun sem hefur verið á síðastliðnum tveimur árum þá er stofninn, ef við horfum á hann sögulega, mjög sterkur,“ segir Þorsteinn.

Litlar breytingar á þorskkvóta á næstu árum

Bjarki býst ekki við miklum breytingum á veiðiráðgjöfinni næstu árin hvað þorsk varðar. 

„Væntanlega erum við að sjá einhverja litla aukningu í viðmiðunarstofni sem ætti að gefa okkur einhverja örlitla hækkun í ráðgjöf þegar fram líða stundir,“ segir Bjarki.

Minni þorskveiði þýðir minni útflutningtekjur

Þorskurinn er næstum helmingur af heildarverðmæti útflutnings sjávarafurða. Heilt yfir þýðir veiðiráðgjöfin að útflutningstekjur minnka.

„Þetta er allt háð gengi, hvaða afurðir við erum að vinna, hvaða verð við erum að fá fyrir fiskinn. En ef við myndum miða við að veröldin væri óbreytt frá fyrra ári, þá er þetta kannski hvað varðar heildina fyrir sjávarútveg, þá er þetta kannski samdráttur upp á kannski sjö milljarða af heildarútflutningsverðmæti,“ segir Heiðrún Lind.

Deila: