Auknar tekjur og hagnaður hjá Brimi hf.

Deila:

Rekstrartekjur Brims hf. á fyrri helmingi ársins 2019 námu 110,1 m€, samanborið við 100,0 m€ árið áður. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) var 23,2 m€ eða 21,1% af rekstrartekjum, en var 10,6 m€ eða 10,6% árið áður. Áhrif fjáreignatekna og fjármagnsgjalda voru neikvæð um 2,5 m€, en voru neikvæð um 1,5 m€ á sama tíma árið áður. Áhrif hlutdeildarfélaga voru jákvæð um 0,3 m€, en voru jákvæð um 1,5 m€ árið áður. Hagnaður fyrir tekjuskatt var 13,6 m€ og hagnaður tímabilsins var 10,7 m€.

„Afkoman á fyrri hluta ársins bendir til þess að við séum á réttri leið. Með kaupunum á Ögurvík á síðasta ári fjárfestum við í auknum veiðiheimildum sem meðal annars skila sér nú í bættri afkomu félagsins. Brim er stórt félag með mikla fjármuni undir og áhættan talsverð vegna utanaðkomandi sveiflna. Arðsemin verður að vera góð til að borga skuldir og fjárfesta í nýjum og fullkomnum framleiðslutækjum bæði í landi og úti á sjó. Þá megum við heldur ekki gleyma því að það kostar sitt að tryggja okkur aðgang að mörkuðum sem greiða gott verð fyrir afurðir okkar. Það eru víða tækifæri til að gera betur og ég er sannfærður um að við getum nýtt okkur þau,“ segir Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims hf.

Efnahagur

Heildareignir félagsins námu 649,9 m€ í lok júní 2019. Þar af voru fastafjármunir 532,5 m€ og veltufjármunir 117,4 m€. Eigið fé nam 276,2 m€, eiginfjárhlutfall í lok júní var 42,5%, en var 41,9% í lok árs 2018. Heildarskuldir félagsins voru í júnílok 373,7 m€.

Sjóðstreymi

Handbært fé frá rekstri nam 31,1 m€ á tímabilinu, en nam 6,0 m€ á sama tíma fyrra árs. Fjárfestingarhreyfingar voru jákvæðar um 24,2 m€. Fjármögnunarhreyfingar voru neikvæðar um 39,5 m€. Handbært fé hækkaði um 15,8 m€ á tímabilinu og var í lok júní 54,1 m€.

Meginniðurstöður færðar til íslenskra króna

Séu niðurstöður rekstrarreiknings reiknaðar til íslenskra króna á meðalgengi fyrri árshelming 2019 (1 evra = 136,6 kr) verða tekjur 15,0 milljarðar króna, EBITDA 3,2 milljarður og hagnaður 1,5 milljarðar. Séu niðurstöður efnahagsreiknings reiknaðar til íslenskra króna á gengi 30. júní 2019 (1 evra = 141,3 kr) verða eignir samtals 91,8 milljarðar króna, skuldir 52,8 milljarðar og eigið fé 39,0 milljarðar.

Skipastóll og afli

Í lok júní gerði samstæðan út 7 fiskiskip, en ísfiskstogarinn Engey RE-1 var seldur í byrjun júní. Ísfiskstogarinn Helga María AK-16 hefur verið í leiguverkefni á Grænlandi, en gert er ráð fyrir henni aftur í rekstur með haustinu.

Á fyrri árshelmingi ársins 2019 var afli skipa samstæðunnar 26,5 þúsund tonn af botnfiski og 43,6 þúsund tonn af uppsjávarfiski.

Önnur mál

Á hluthafafundi sem haldinn var í félaginu 15. ágúst staðfesti hluthafafundur ákvörðun stjórnar um kaup félagsins á öllu hlutafé í sölufélögum í Japan, Hong Kong og á meginlandi Kína sem og þjónustufélagi á Íslandi. Greitt verður fyrir eignarhlutina með útgáfu nýrra hluta í félaginu, en samanlagt kaupverð eignarhlutanna nemur 34,9 millj. dollara. Kaupverðið getur þó lækkað nái félögin ekki tilteknum rekstrarhagnaði.

 

 

Deila: