Stefna að 5.000 tonna fiskeldi í Þorlákshöfn
Landeldi er þróunarfélag sem stefnir að uppsetningu 5.000 tonna árseldi á laxi við Laxabraut í Þorlákshöfn í kerum á landi. Áætlað er að eldiskör verði samtals um 65.000 rúmmetrar. Stefnt er að framleiðslu á gæðafiski og fullvinnslu á honum í Þorlákshöfn. Reiknað er með því að bein störf við þetta verkefni í Þorlákshöfn verði um 50 og afleidd um 25 til viðbótar.
Fyrirhugað er að Landeldi framleiði eigin seiði að hluta til og er félagið með land undir slíka framleiðslu í Ölfusi, sem sérstaklega var keypt í þeim tilgangi. Það svæði er í þróunarferli meðfram fiskeldinu. „Við byggjum þessa starfsemi upp í Þorlákshöfn vegna hagstærða aðstæðna þar. Mikil þekking er á fiskvinnslu í sveitarfélaginu og staðsetningin þar er mjög góð. Hafnaraðstaða er frábær og samgöngur til og frá Þorlákshöfn, bæði á landi og sjó eru mjög góðar,“ segir Ingólfur Snorrason, einn forvígismanna Landeldis.
Byggt upp í gamalli grjótnámu
„Stöðin verður á svæði sem er í raun og veru gamla grjótnáman, sem heimafólk þekkir vel. Þetta var ekki skilgreint sem iðnaðarsvæði áður en við fengum þessa hugmynd. Við völdum þessa staðsetningu vegna þess að við teljum að starfseminni sér þar mjög vel komið fyrir. Það er vegna þess að náman er fimm til sjö metra djúp. Það kemur sér vel við dælingu á sjó fyrir eldið upp úr borholum, því hver metri upp skiptir miklu máli í kostnaði.
Við erum búnir að vinna að þessu um tíma, en Haraldur Snorrason fékk þessa hugmynd fyrir um þremur árum síðan. Hann hefur starfað í allnokkurn tíma fyrir aðila í fiskeldi úti í Noregi og er nú kominn heim aftur. Við höfðum skoðað svæði allt frá Suðurnesjum og austur á firði með þær hugmyndir að setja upp eldi í þessum stærðarflokki. Einhverjum kann kannski að finnast þetta töluvert stórt, en í samhenginu hvernig starfsemin hefur verið að þróast er 5.000 tonna landeldi lítið miðað við mörg þúsund tonna kvíaeldi á hafi úti.“ Heildarframleiðsla á laxi í heiminum er nærri þremur milljónum tonna.
Landeldi hefur starfað mjög náið með sveitarfélaginu Ölfusi og sérstaklega Gunnsteini Ómarssyni í Þorlákshöfn. Það er sex manna hópur sem stendur að verkefninu og rauði þráðurinn í hugmyndinni er skiptieldi á milli lax og bleikju. Lagt er upp með að sía frá allan eldisvökva sem kemur frá stöðinni. Talið er að hægt sé að draga um 80% af seyru úr eldisvökvanum og hún verður þá nýtt í annað verkefni. Þar eru hugmyndir um áburð og jafnvel smærri rannsóknarverkefni, sem snúa að smáþörungavinnslu.
Verkefnið er í umhverfismati
„Við viljum að verkefnið sé að marka sem minnst spor í náttúruna og þess vegna leggjum við metnað í að það sé frágengið í báða enda. Að ekki sé einungis verið að hugsa um eina vörutegund, sem í þessu tilfelli er laxinn og bleikjan, heldur heildarmyndina. Þessi atvinnugrein er í mikilli þróun. Mikið er skrifað um fiskeldi um allan heim um þessar mundir. Við sáum til dæmis fréttir af því ekki alls fyrir löngu að það eru stórar landeldisstöðvar á teikniborðinu víða um heim. Væntanlega er erfitt að finna aðstæður sem eru betri til slíks eldis en eins og hér á Íslandi, til að framleiða vöru sem er fyrsta flokks og getur skilað sem hæstum verðum. Það er líka mikilvægt fyrir okkur Íslendinga að huga að ímynd þeirrar starfsemi sem er í gangi á Íslandi og þeirrar sem koma skal, til dæmis með tilliti til þess hvaða vörumerki við erum að tala um; bæði íslenska framleiðslu og Ísland sjálft.
Við erum með verkefnið í umhverfismati, eftir að hafa farið í matsskyldufyrirspurn. Niðurstaðan var að gott væri að fara með verkefnið í umhverfismat. Það ferli hefur gengið vel en með því fáum við skýrari mynd af verkefninu á meðan við erum að vinna það og hvaða ferli við erum að fara í gegnum með tilliti til leyfisveitinga og náttúruauðlinda. Við reiknum með því að þetta verkefni geti farið af stað á fyrri hluta næsta árs. Þarna verðum við að vera svolítið jarðbundnir og gefa okkur tíma og vinna heimavinnuna okkar almennilega.“
Úrgangur verður að auðlind
Ingólfur telur framtíð landeldis á Íslandi geta verið góða. Þar sé ekki um sömu umhverfismálin að ræða og í sjókvíaeldi. Vissulega sé stofnkostnaður við landeldi meiri en það jafnist líklega út þegar á líður. Eldi sem geti sýnt fram á sjálfbærni og vistvæna framleiðslu geti náð betri stöðu á mörkuðum fyrir afurðir sínar. Mikil tækifæri séu í vöruþróun, bæði á fiskinum sem slíkum og aukaafurðum eins og seyru. Það séu tækifæri í flestu sem snúa að svona starfsemi. Það sem kallað var úrgangur áður, sé að segja megi auðlind í dag. Menn verði að hafa augun opin fyrir öllum þeim tækifærum sem hugsanlega geta opnast í vöruþróun í kringum fiskeldi. Þau séu mörg og því sé þetta sé mjög spennandi vettvangur.