Vilja auka fiskeldi innan ESB

Deila:

Fiskeldisframleiðsla í ríkum Evrópusambandsins gæti aukist um fjórðung, eða um 25 prósent,árið 2020, ef hrint væri í framkvæmd fyrirliggjandi tillögum sem miða að því að örva fiskeldi í löndum sambandsins. Þetta kemur fram í drögum að tillögu sem unnin hefur verið í sjávarútvegsnefnd þings Evrópusambandsins og var lögð fram til kynningar í meðlimaríkjunum nú í febrúar. Frá þessu er greint á heimasíðu Landssambands fiskeldisstöðva.

20% allrar fiskframleiðslu í Evrópu kemur frá fiskeldi

Í greinargerð tillögunnar kemur fram að frá fiskeldi komi sem svarar 20 prósentum allrar fiskframleiðslu í Evrópu og bein störf í fiskeldi séu 85 þúsund. Í greinargerðinni kemur fram að afurðir fiskeldisins séu af miklum gæðum, framleiðslan sé sjálfbær og mæti kröfum neytenda um örugga fæðuframleiðslu.

Enginn vöxtur hefur verið í fiskeldi í ESB
Fram kemur enn fremur að enginn vöxtur hafi orðið í fiskeldinu í ríkjum ESB frá aldamótum, en á sama tíma hafi heimsframleiðslan aukist um sjö prósent á ári. Vegna efnahagssamdráttarins í kjölfar bankakreppunnar hafi orðið samdráttur í fiskeldi innan ESB frá árinu 2009 til 2013.

„Fiskeldi hefur grundvallarþýðingu í samfélagi okkar“
Vakin er athygli á því að fiskeldi sé á meðal þeirra atvinnugreina sem hafi mestu sjálfbæru vaxtarmöguleikana og þar séu tækifæri til atvinnusköpunar hvað mest sé litið á atvinnulífið í heild sinni. „Fiskeldi hefur grundvallarþýðingu í samfélagi okkar“, segir þar einnig.

Fiskeldi gegnir lykilhlutverki þegar kemur að matvælaöryggi
Vísað er í fiskveiðistefnu Evrópusambandsins þar sem segir að fiskeldi gegni lykilhlutverki þegar kemur að matvælaöryggi, þar með talið fæðuframboði, jafnframt því að stuðla að atvinnusköpun fyrir íbúa Evrópusambandsins og mæta vaxandi eftirspurn í heiminum eftir sjávarafurðum.

Flókið fyrirkomulag
Í tillögu fiskveiðinefndarinnar er vakin athygli á og gagnrýnt að leyfafyrirkomulagið fyrir fiskeldi innan ríkja ESB sé flókið og ógagnsætt af ýmsum ástæðum.

Fjárhagslegur stuðningur – efnahagslegir hvatar
Í tillögunni er að finna ýmsar leiðir til þess að greiða fyrir uppbyggingu fiskeldis innan ríkja ESB. Auk þess sem snýr að leyfum og fyrirkomulagi þeirra, eru einnig lagðar fram ýmsar tillögur til þess að auðvelda vöxt greinarinnar, svo sem með fjárhagslegum stuðningi og efnahagslegum hvötum til þess að greiða fyrir því að ná megi markmiði um aukið fiskeldi í aðildarríkjunum.

 

Deila: