Ufsaveiðin að aukast

Deila:

,,Febrúarmánuður var auðvitað erfiður hjá okkur eins og öðrum  vegna veðurs en það hefur verið allt annað og betra upp á síðkastið. Það er að færast vertíðarstemning yfir veiðina hér syðra og ufsaveiðin er að aukast,“ segir Jóhannes Ellert Eiríksson, skipstjóri á Ottó N. Þorlákssyni RE í samtali á heimasíðu HB Granda.
Ottó hefur verið að veiðum suðvestur og vestur af Reykjanesi, eða á heimamiðum ísfisktogara HB Granda, undanfarna daga en skipið á að vera komið til hafnar í Reykjavík nk. sunnudagsmorgun.
,,Við höfum ekkert norður á Vestfjarðamið að sækja þegar þessi tími er kominn. Hefðbundin vertíðarstemning með tilheyrandi þorskgengd og sem betur fer er ufsaveiðin að glæðast. Gullkarfastofninn stendur sterkt en það er lítið veitt af gullkarfa,“ segir Jóhannes Ellert en í spjallinu við hann kemur fram að að bráðlega verði nýi togarinn, Viðey RE, tilbúinn. Verið er að koma fyrir aðgerðaraðstöðu á millidekki og sjálfvirku lestarkerfi í skipið á Akranesi auk þess sem öll tölvukerfi vegna siglingar og veiða verða stillt.
,,Við verðum á Ottó þar til Viðey verður klár,“ sagði Jóhannes Ellert Eiríksson.
Samkvæmt upplýsingum Birkir Hrannars Hjálmarssonar, útgerðarstjóra ísfisktogara HB Granda, er stefnt að því að Viðey verði fullbúin til veiða í næsta mánuði.

Deila: