Skaginn 3X og Frost gera enn einn risasamninginn

Deila:

Skaginn 3X gerir tímamótasamning á Kamtchaka Skrifað var undir samning um heildarlausn í nýja verksmiðju sem Collective Farm Fishery by V.I. Lenin er að byggja í Petropavlosk á Kamtchaka í Austur Rússlandi.  Verksmiðjan verður búin lausn til að stærðarflokka, vinna og frysta tegundir eins og Alaska ufsa, nokkrar tegundir villts lax, Kyrrahafs þorsk, uppsjávarfisk og smokkfisk.  Samningurinn var undirritaður við hátíðlega athöfn í Íslenska sendiráðinu í Moskvu þann 25. Júlí.

Virðisaukning í fyrirrúmi 

Sergey Borisovich Tarusov og Ingólfur Árnason undirrita samninginn.

Sergey Borisovich Tarusov og Ingólfur Árnason undirrita samninginn.

Forstjóri Lenin er skýr um fyrirætlanir fyrirtækisins með nýrri verksmiðju, við undirritun samningsins sagði hann: „Við erum stolt af því að innleiða íslenska tækni í nýju verksmiðjuna.  Með þekkingu og venjum um vinnslu í Austur Rússlandi í bland við framleiðslutækni frá Íslandi verður til frammúrskarandi leið til að auka nýtingu og verðmæti auðlindarinnar.“

 

Frost mun sjá um kælikerfin

Kælismiðjan Frost mun sjá um allt kælikerfið í verksmiðjunni.  Samlegðaráhrif samvinnu Skagans 3X og Frost kristallast í fyrirtækinu Knarr Rus sem er endursöluaðili fyrir íslensk tæknifyrirtæki inn á rússneskan markað.  Kælikerfið mun verða af fullkomnustu gerð og standast allar nútíma kröfur um orkunýtingu og umhverfismál.

 

Leiðandi tækni í frystingu

Teikning af hinu nýja verksmiðjuhúsi.

Teikning af hinu nýja verksmiðjuhúsi.

Verksmiðjan verður meðal annars búin sjálfvirkum plötufrystum sem Skaginn 3X er þekktur fyrir, að auki mun fyrirtækið afhenda nýja tegund sjálfvirkra frysta til að frysta afurðir sem eru ætlaðar í sögunarverksmiðjur og þurfa því að standast stífar kröfur um lögun og fleiri þætti.  Þessu til viðbótar verður verksmiðjan búin lausfrystum sem geta tekið margskonar afurðir, allt frá smáum smokkfisk og upp í heilan lax.  Í heildina er verksmiðjan hönnuð til að geta fryst yfir 500 tonn á sólarhring með möguleika á aukningu seinna.

Tenging milli skaga

Það er margt sem sameinar fyrirtækin tvö en þau eru bæði með sínar aðal starfsstöðvar í sjávarbyggð og eru staðsettar á sitthvorum skaganum, annarsvegar Kamtchatka skaga og hins vegar Skipaskaga.  Skagarnir eru hins vegar sitthvorum megin á hnettinum og 12 tímabelti á milli.

 

Heilsteypt kerfislausn

Ingólfur Árnason framkvæmdastjóri Skagans 3X bindur miklar vonir við nýju verksmiðjuna. „Það er jákvætt fyrir okkur að taka þátt í að koma vinnslu upp á annað og hærra stig þarna með heilsteyptri kerfislausn. En aðal atriðið er að viðhalda gæðum fisks og auka þau verðmæti sem eru sköpuð,“ sagði Ingólfur Árnason.

Styrkir enn frekar stöðu Skagans 3X á mikilvægum markaði

„Verkefnið er mikilvægt skref fyrir okkur og tækifæri til að sanna en frekar getu okkar í Rússlandi, nánar tiltekið í austur Rússlandi en þar er annarskonar vinnsla en tíðkast Evrópu megin,” segir Jón Birgir Gunnarsson, markaðs og sölustjóri hjá Skaganum 3X, „við erum nú þegar á fullu í öðru stóru verkefni fyrir Gidrostroy þannig að við erum virkilega að ná fótfestu á þessum markaði,” bætir Jón Birgir við.

 

Knarr Rus mikilvægur miðpunktur

Knarr Rus sem er endursöluaðili nokkurra íslenskra tæknifyrirtækja í Rússlandi hefur verið í mikilvægu hlutverki. „Knarr Rus hafa í raun virkað eins og brú fyrir okkur inn á þennan markað, þar er fólk sem skilur tungumál og menningu beggja landa, það væri í raun ómögulegt að vinna sér sess þarna inn án þeirra aðkomu,” segir Guðmundur Hannesson, sölustjóri Frosts að lokum.

Deila: