Erfitt í rækjunni

Deila:

Arnar Kristjánsson útgerðarmaur sem gerir út rækjuveiðiskipið Ísborgu ÍS, segir veiðina í vera allt í lagi, þó hún mætti vera betri en verðin séu léleg þessa dagana. Þetta segir Arnar ´+I samtali við fréttavefinn bb.is

Veiðin núna er aðalega norður í kanti, sem er út af Horni. Það er frekar jöfn veiði og rækja dreifð um stórt svæði, en aldrei nein uppgrip. Arnar gerir ráð fyrir að Ísborgin færi sig í Kolluálinn í haust en þar sem veiði er oft góð og von á vænni rækju. Arnar stóð fyrir því að láta loka því svæði yfir hrygningartímann, apríl-maí, sem var þó í óþökk margra. Hann trúði því að nauðsynlegt væri að gefa rækjunni tækifæri til að hrygna í friði og vísindamenn Hafró tóku undir það sjónarmið og ráðuneytið tók undir þau með lokun yfir hrygningartímann.

Þrátt fyrir að framboð af hráefni sé lítið í dag eru verðin frekar lág. Veiði hefur dregist saman í Kanada sem hefur verið helsta uppspretta iðnaðarrækju fyrir íslenskan rækjuiðnað, en þó glæðst aðeins við Svalbarða. Veiðar drógust saman á Grænlandi en fiskimenn þar hafa fært sig norðar og fundið ný mið á þeim slóðum. Innfjarðarveiðar á rækju við Ísland eru ekki svipur hjá sjón miðað við það sem áður var, og sennilega vegna hlýnandi sjávarhita.

En íslenskur rækjuiðnaður á undir högg að sækja. Mestu munar um hátt gengi krónunnar á sama tíma og hægt er að tala um hrun á gengi pundsins, en nánast öll rækja sem er flutt út soðin, pilluð og fryst, er seld til Bretlands. Verulegar launahækkanir hafa orðið á sama tíma á Íslandi, langt umfram það sem gerist í samkeppnislöndum okkar; Grænlandi, Kanada og Noregi. Í dag eru aðeins fimm verksmiðjur starfræktar á Íslandi, en verksmiðjan í Grundarfirði lokaði um daginn vegna rekstrarörðugleika.

Rækjuiðnaður skiptir Vestfirðinga miklu máli og er burðaás í atvinnulífi Hólmavíkur, en þar er rækjuvinnsla Hólmadrangs starfrækt. Í Ísafjarðarbæ er Kampi rækjuvinnsla mikilvæg fyrir atvinnulíf og verðmætasköpun, með 50 manns í vinnu, ásamt því að reka rækjumjölsvinnslu í Bolungarvík. Það væri því mikið högg fyrir þessi samfélög ef vinnsla legðist af, eins og hefur sýnt sig á Grundarfirði.

Veiðar í Ísafjarðardjúpi hafa skipt rækjuvinnslur á Vestfjörðum miklu máli. Hér áður og fyrr var meðalveiði þar um 2.000 tonn en mikið hefur dregið úr veiði síðustu árin. Á síðustu vertíð var veitt 330 tonn sem fór til vinnslu á Hólmavík. Rækjusjómenn voru mjög ánægðir með veiðina á vertíðinni og vonast eftir góðum fréttum í haust þegar rannsóknir verða gerðar á veiðistofni rækju í Djúpinu.

 

Deila: