Vísir kveður Kanada reynslunni ríkari
Vísir hf. hefur selt dótturfélagið Landvís Kanada sem hélt utan um hlut Vísis í kanadíska útgerðarfyrirtækinu Ocean Choice International (OCI). Fréttamiðillinn Undercurrent News greindi fyrstur frá þessu í síðustu viku. Pétur Pálsson, forstjóri Vísis, segir í samtali við Viðskiptamoggann í dag, að ráðist hafi verið í kaupin árið 2007 með það fyrir augum að skapa nýja möguleika í markaðsstarfi. Stóðu líka vonir til að nýta þann uppgang sem menn væntu í þorskveiðum við Nýfundnaland um þetta leyti, á sama tíma og samdráttur var í þorskveiðum í íslenskri lögsögu. „Eins og margir aðrir langaði okkur að taka þátt í útrásinni,“ segir Pétur.
Kanadískur risi
OCI er stærsti kvótahafi Nýfundnalands og fyrirtækið mjög umsvifamikið í veiðum og vinnslu á rækju, krabba og hörpudiski. Er OCI með sex starfsstöðvar, aðallega á Nýfundnalandi, en einnig á Nova Scotia, og gerir út sex skip. Átti Vísir 30% hlut í OCI, í gegnum dótturfélagið Landvís og að auki skuldabréf með breytirétti upp á 19%, á móti 51% hlut bræðranna Martins og Blaines Sullivan. Fljótlega þróuðust málin á þann veg að ósætti skapaðist um stjórnun og stefnu OCI og áttu Vísir og OCI í löngum málaferlum.
Fyrst höfðaði Vísir mál, í gegnum Landvís, árið 2015 vegna misnotkunar á minnihluta en hæstiréttur Nýfundnalands og Labrador vísaði málinu frá árið 2016. Landvís áfrýjaði þeirri niðurstöðu en ekki hafði fengist niðurstaða í áfrýjunina þegar tókst að ganga frá sölunni. OCI höfðaði í einnig mál gegn Landvís en hæstiréttur hafnaði þeirri kröfu sömuleiðis. Pétur vill ekki ræða nánar um hvað deilurnar snérust. „Það var kreppa í útlöndum rétt eins og á Íslandi, og líkt og velflest fyrirtæki á þessum tíma lenti OCI í miklum erfiðleikum sem í dag eru langt að baki. Hefur fyrirtækinu gengið vel síðustu ár.“
Reynslunni ríkari
Kanadíski milljarðamæringurinn John Risley keypti hlut í Landvís í október en hann er einn stærsti hluthafi Clearwater Seafood. Martin og Blaine Sullivan kaupa svo Landvís Kanada í maí og þar með allan eignarhlut Vísis og Risley í OCI. Kaupverðið fæst ekki uppgefið en Pétur segir að Vísir komi réttum megin við núllið út úr þessu tíu ára ferli. Segir hann að þrátt fyrir málaferlin hafi verið um skemmtilegt tímabil að ræða og starfsmenn Vísis reynslunni ríkari. Þegar Sullivanbræðurnir og Vísir keyptu OCI á sínum tíma var samningurinn metinn á 158 milljón kanadadali.
Eftir söluna er Vísir áfram með töluverða starfsemi erlendis og á að fullu dreifingar- og vinnslufyrirtækið DSFU í Cuxhaven í Þýskalandi. Þaðan er saltfiski dreift á Evrópumarkað og einnig verkaður fiskur sem keyptur er frá Alaska og Noregi. Á Vísir líka, í félagi við útgerðina Þorbjörn og gríska athafnamanninn Yannis Lyberopoulos, dreifingarfyrirtækið Pytheas Seafood í Grikklandi.
Útilokar ekki útrás
Aðspurður hvort málaferlin í Kanada hafi dregið úr áhuga Vísis á að láta að sér kveða erlendis segir Pétur að svo sé ekki. „Nóg er samt af verkefnum á Íslandi í augnablikinu og með sölunni á hlut okkar í OCI er búið að einfalda og styrkja efnahagsreikning Vísis. Þá erum við komin með fullt af ungu og óþreyttu fólki til starfa hjá okkur, sem er tilbúið að takast á við áskoranirnar ef fleiri áhugaverð tækifæri bjóðast erlendis.“
Á myndinn er línubáturinn Ocean Breeze sem Vísir notaði um tíma við veiðar við Nýfundnaland. Ljósmynd Hjörtur Gíslason.