Hæstánægðir fulltrúar japanskra kaupenda loðnuafurða

Deila:

„Við höfum verið hérna níu Japanir og þeir eru bæði starfsmenn fyrirtækja sem kaupa loðnu til Japan og eins fulltrúar viðskiptavina þessara fyrirtækja. Við bíðum alltaf spenntir eftir því að hrognahlutfallið nái 15% en það er lágmarkið fyrir Japansloðnuna. Þetta hlutfall náðist sl. laugardag þegar Vilhelm Þorsteinsson EA kom með tæplega 2.300 tonn til löndunar. Í farmi skipsins var úrvalsloðna sem flokkaðist afar vel og reyndist hrognafyllingin vera vel yfir 16%. Nú var Barði NK að koma með rúmlega 1.200 tonn og við eigum von á að hann sé með svipaða gæðaloðnu,” segir Kusa sem er einn þeirra fulltrúa japanskra kaupenda frystrar loðnu sem nú eru í Síldarvinnslunni í Neskaupstað að fylgjast með loðnuvinnslunni. Rætt er við þrjá þeirra á vef Síldarinnslunnar.
Fyrirtækin sem þeir vinna fyrir hafa keypt bæði frysta loðnu og loðnuhrogn frá Íslandi. Áðurnefndur Kusa hefur komið til Íslands á 29 loðnuvertíðir og félagi hans Mukai á 28 vertíðir en sá þriðji, Kurihafa, er hér á sinni fimmtu loðnuverðið. Í viðtalinu lýsa þeir ánægju með Íslandsheimsóknirnar. Þeir líti nánast á hverja vertíð sem hátíð. „Þetta er annatími en það er alltaf gott að koma og við eigum marga vini og félaga á Íslandi,“ segir Kusa.

Loðnuafurðirnar ómissandi í Japan
Þeim félögum líst afar vel á yfirstandandi loðnuvertíð. Þeir segja að allt sé jákvætt við vertíðina; mikið af loðnu sé á miðunum, veiðarnar gangi vel og loðnan sem veiðist sé afar góð. Þeir gera ráð fyrir að framleiðsla hrogna hefjist í byrjun marsmánaðar. „Þetta er nánast eins gott og það getur verið,“ segja þeir einum rómi.

Þeir segja jafnframt að ávallt sé beðið eftir nýrri loðnu á markað í Japan og það skipti miklu máli fyrir markaðinn að loðna sé veidd á hverju ári. Japanir vilji fá loðnuna til að steikja á pönnu eða til að djúpsteikja og loðnuhrognin eru fyrst og fremst notuð í sushi. Loðnan og hrognin er vinsæl matvara í Japan sem fólk vill ekki vera án. Það sé ávallt slæmt fyrir markaðinn þegar koma loðnuleysisár því markaðurinn er viðkvæmur.

„En við þurfum ekki að hafa áhyggjur núna því þessi vertíð verður ábyggilega mjög góð,“ segja þeir félagar í viðtalinu.

Mynd: Smári Geirsson /svn.is

Deila: