Miklar millifærslur í makríl
Umtalverðar millifærslur eru nú á makríl. Þannig hafa bátar í flokknum skip án vinnslu engum makríl landað á vertíðinni og megnið af heimildum þeirra hefur verið flutt yfir á önnur skip. Aðeins þrjú skip í flokknum vinnsluskip hafa landað afla og hefur ríflega þriðjungur heimilda þeirra verið færður yfir á önnur skip. 340 skip og bátar hafa fengið úthlutun.
Staðan í veiðunum nú er sú að búið er að landa 52.000 tonnum, kvótinn er 175.000 tonn og því 123.000 tonn óveidd.
Aflareynsluskip er sá flokkur, sem mestar heimildir hefur, eða 147.200 tonn eftir færslu milli ára og millifærslur. Afli þessara skipa er nú 47.800 tonn og því um 100.000 tonn óveidd af heimildum þeirra. Aflahæstu skipin í þeim flokki eru Venus NS með 5.554 tonn, Víkingur AK með 4.774 tonn og Ásgrímur Halldórsson SF með 4.442 tonn.
Eins og áður sagði hafa aðeins þrjú vinnsluskip landað makríl í sumar og eru það Brimnes RE með 1.538 tonn, Gnúpur GK með 742 tonn og Hrafn Sveinbjarnarson GK með 164 tonn.
Smábátarnir eru nú komnir með um 1.300 tonn, en heildarheimildir þeirra eru tæp 7.000 tonn í úthlutun og möguleiki upp á 2.000 tonn til viðbótar í leigukvóta. Langaflahæsti smábáturinn er Fjóla GK með 162 tonn.