Vinnsla hafin á Seyðisfirði að loknu sumarfríi

Deila:

Vinnsla í fiskvinnslustöð Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði er hafin að loknu sumarfríi. Ísfisktogarinn Gullver NS landaði fullfermi, 107 tonnum, á mánudag og fóru um 55 tonn af afla hans til vinnslu í stöðinni. Þar er nú unninn þorskur og ufsi og munu ferskir þorskhnakkar fara með ferjunni Norrænu á morgun. Á meðan á sumarfríinu stóð var unnið að viðhaldi, málað og snurfusað, að sögn Adolfs Guðmundssonar rekstrarstjóra.

„Fiskvinnslustöðin er nú orðin býsna glæsileg því verið er að leggja lokahönd á umfangsmiklar endurbætur á húsinu. Húsið hefur meðal annars verið klætt utan og er útlit þess orðið til fyrirmyndar.

 

Um 40 manns starfa í fiskvinnslustöðinni, en ennþá hafa ekki allir hafið störf að afloknu fríinu. Starfsfólkið mun vera að tínast inn fram í næstu viku en þá ætti framleiðslan að komast á fullan skrið,“ segir í frétt á heimasíðu Síldarvinnslunnar.
Ljósmynd Ómar Bogason.

 

 

Deila: