Hátíðardagur hjá DFFU dótturfélagi Samherja í Þýskalandi

Deila:

Það var stór dagur í útgerðarsögu Samherja og Deutsche Fischfang Union (DFFU) þegar tveimur nýjum og glæsilegum skipum DFFU var gefið formlega nafn síðastliðinn föstudag við hátíðlega athöfn í Cuxhaven, Þýskalandi. Dagurinn var ekki síður merkilegur vegna þess að síðasta nýsmíði DFFU kom til Cuxhaven árið 1990.

Frá athöfninni s.l. föstudag. Á myndinni eru f.v. Dr. Ulrich Getsch borgarstjóri Cuxhaven, Haraldur Grétarsson framkvæmdastjóri DFFU og eiginkona hans Harpa Ágústsdóttir, Kai-Uwe Bielefeld umdæmisstjóri og Stale Rasmussen.

Frá athöfninni s.l. föstudag. Á myndinni eru f.v. Dr. Ulrich Getsch borgarstjóri Cuxhaven, Haraldur Grétarsson framkvæmdastjóri DFFU og eiginkona hans Harpa Ágústsdóttir, Kai-Uwe Bielefeld umdæmisstjóri og Stale Rasmussen.

Harpa Ágústsdóttir, eiginkona Haraldar Grétarssonar, framkvæmdastjóra DFFU, gaf Cuxhaven NC 100 nafnið með formlegum og hefðbundnum hætti. Það kom svo í hlut eiginkonu ráðuneytisstjóra landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytisins, Annegret Aeikens, að gefa Berlin NC 105 nafn. Í tilefni þessa var móttaka fyrir viðskiptavini, embættismenn, birgja, starfsmenn og velunnara félagsins. Alls mættu um 400 gestir frá 17 löndum. Haraldur Grétarsson, Dr. Ulrich Getsch, borgarstjóri Cuxhaven og Dr. Hermann Onko Aeikens, ráðuneytisstjóri landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytisins fluttu ávörp við tilefnið.

Við þetta tækifæri afhenti DFFU sjóminjasafni Cuxhaven níu skipslíkön. Líkönin eru af skipum tengdum félaginu og sýna glöggt þróunina sem orðið hefur í útgerð Þýskalands á síðustu öld en elsta líkanið er frá árinu 1921. Þessari gjöf var vel tekið af forsvarsmönnum safnsins enda saga útgerðar Þýskalands og Cuxhavenborgar samofin. Cuxhaven var ein stærsta fiskihöfn Þýskalands á síðustu öld og lönduðu mörg íslensk fiskiskip afla sínum úr Norðursjó þar.

Á laugardaginn var bæjarbúum og öðrum áhugasömum gestum boðið að koma um borð og skoða skipin. Það var einkar ánægjulegt að á þriðja þúsund manns nýttu tækifærið. Skipin eru 81,2 metra löng, frystiskip sem voru byggð í norsku skipasmíðastöðinni Mykleburst og hönnuð í samvinnu við Rolls-Royce. Þetta eru glæsileg skip sem búin eru fullkomnasta búnaði sem völ er á og er þá sama hvar borið er niður, í brú, millidekki, vél eða aðstöðu fyrir áhöfn. Það er ánægjulegt að mikið af búnaði kemur frá íslenskum iðn- og tæknifyrirtækjum og má þar nefna t.d. Slippinn og Kælismiðjuna Frost á Akureyri, Vélfag á Ólafsfirði, Marel, Brimrún og Héðinn hf.  Athöfnin hlaut nokkra umfjöllun í þýskum fjölmiðlum eins og sjá má hér og hér.

Samherji Cuxhaven og Berlín

„Í dag erum við fyrst og fremst stolt og glöð. Við erum að nefna tvö glæsileg skip sem sýna svo engum dylst að við höfum trú á framtíðinni. Við erum búin að starfa í þessu umhverfi síðan 1996 og erum þetta okkar fyrstu nýsmíðar í Þýskalandi. Fyrstu árin okkar hér voru ekki auðveld. Undanfarið hefur gengið vel og við trúum að þetta sé mikilvægt skref og upphafið á glæstum kafla í okkar útgerðarsögu í Þýskalandi.” Segir Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja.

„Þetta er stór dagur í sögu DFFU. Þessar skipasmíðar eru líka mikilvægt skref hjá okkur til að auka samkeppnishæfni okkar í rekstrinum og ekki síður til styrkja stöðu okkar í að laða að okkur hæft ungt fólk í áhugaverð störf á sjó. Þetta eru vel launuð störf þar sem við bjóðum upp á bestu fáanlegu vinnuaðstæður. Það var líka einstaklega gaman að sjá hvað bæjarbúar í Cuxhaven sýndu skipunum mikin áhuga, komu um borð og glöddust með okkur,” segir Haraldur Grétarsson, framkvæmdastjóri DFFU.

Hér að neðan má sjá umfjöllun sjónvarpsstöðvarinnar N4 frá Cuxhaven:

https://www.n4.is/is/thaettir/file/nyir-frystitogarar-til-cuxhaven

 

 

Deila: