Ekki rétt að blanda fiskvinnslu inn í útreikninga veiðigjalds

Deila:

,,Við höfum ekki gert athugasemdir við að stjórnvöld innheimti sérstakt veiðigjald. Við höfum lagt áherslu á að það sé reiknað út frá afkomu veiða einstakra tegunda og að jafnræði sé meðal þeirra sem fá úthlutaðar aflaheimildir.“

Þetta segir Vilhjálmur Vilhjálmsson, forstjóri HB Granda, í opnuviðtali í septemberblaði World Fishing. Í blaðinu, sem dreift var á íslensku sjávarútvegssýningunni, er m.a. rætt við Vilhjálm og Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, starfandi sjávarútvegsráðherra, um fiskveiðistjórnunarkerfið og umræðuna um sanngjarnt afgjald af nýtingu fiskstofnanna. Í viðtalinu segir Vilhjálmur enn fremur:

,,Okkar athugasemdir við núverandi útreikning veiðigjalds er að í fyrsta lagi teljum við ekki rétt að blanda fiskvinnslu inn í útreikningana og í öðru lagi teljum við að hæglega sé hægt að uppfæra allar þær upplýsingar sem skipta máli á þann veg að veiðigjaldið geti miðast af afkomu hverju sinni og nálgast staðgreiðslu í stað greiðslu sem miðast við tveggja ára gamlar afkomutölur.“

Undir þetta sjónarmið tekur sjávarútvegsráðherra.

,,Þessi mál eru til umfjöllunar hjá hinni svokölluðu sáttanefnd en ef hún kemst ekki að niðurstöðu þá blasir við að miða verður við nýrri tölur sem gefa gleggri mynd af stöðu einstakra fyrirtækja. Ég skil þessa gagnrýni mæta vel en þetta er mál sem sáttanefndin á að taka á. Það þarf ennfremur að skoða heildarlöggjöfina um auðlindagjöld. Bent hefur verið á að réttast sé að nota skattkerfið í þessu sambandi og það kemur, að mínu mati, til álita að innheimta veiðigjöld sem sérstakan tekjuskatt. Ég hef mínar hugmynd en sáttanefndin er með málið á sínu borði og ég ætla ekki að segja henni fyrir verkum. Það eina sem ég legg áherslu á er að kerfið verður að vera einfalt og það verður að vera sanngjarnt,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir en hún segist í viðtalinu vera sannfærð um að sátt takist um sjávarútveginn á kjörtímabilinu en þau orð voru reyndar látin falla áður en ríkisstjórnin missti meirihluta sinn á þingi.

Vilhjálmur segir í viðtalinu að hvað sem öllum deilum líði þá hafi kvótakerfið reynst Íslendingum mjög vel.

,,Staða helstu botnfisktegunda, sem við veiðum, er traust. Kvótakerfi og aflaregla hafa stuðlað að varfærni við ákvörðun aflamarks og eflt þorskstofninn verulega svo dæmi sé tekið en þorskurinn er okkar mikilvægasta fisktegund. Um 1990 var algengur afli togara á úthaldsdag um átta til tíu tonn. Nú þykir lélegt ef sömu togarar eru ekki að ná um 30 tonnum á úthaldsdag af sömu fisktegund á sömu miðum. Þennan árangur getum við þakkað ábyrgri fiskveiðistjórnun.

Það sem helst skyggir á varðandi uppsjávarstofna er að ekki hefur náðst samkomulag strandríkja um skiptingu sameiginlegra stofna, samanber norsk-íslensku síldina, makríl og kolmunna auk þess sem skipting loðnu virðist vera í uppnámi. Þær þjóðir, sem gera kröfur um veiðar úr þessum stofnum, verða einfaldlega að fara að girða sig í brók og ná samkomulagi til að forða annars óhjákvæmilegu hruni þessara stofna,“ segir Vilhjálmur Vilhjálmsson.

Deila: