Starfi sáttanefndar slitið

Deila:

Starfi sáttanefndar um gjaldtöku í sjávarútvegi hefur verið slitið af formanni nefndarinnar, Þorsteini Pálssyni. Hann segir í yfirlýsingu sinni til sjávarútvegsráðherra að Sjálfstæðisflokkurinn hafi komið í veg fyrir að samkomulag hafi nást í nefndinni. Tveir nefndarmenn eru Þorsteini ósammála. Páll Jóhann Pálsson hefur gefið út yfirlýsingu vegna þessa og segir þar: Það  kom á daginn að formaður nefndar um sátt í sjávarútvegi ætlaði aldrei að skapa neina sátt um sjávarútveg, heldur ætlaði hann að reka fleyg í ríkisstjórnarsamstarf Viðreisnar og Sjálfstæðisflokks. Teitur Björn Einarsson, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í nefndinni, segir í samtali við Morgunblaðið að þetta sé ekkert annað en pólitískt upphlaup vikur fyrir kosningar af hálfu formanns nefndarinnar, sem sé í framboði fyrir Viðreisn.

„Þegar ákveðið var að rjúfa þing og efna til kosninga 28. október næstkomandi stóðu mál þannig að fulltrúar tveggja flokka, Viðreisnar og Framsóknarflokks, höfðu lagt fram tillögur í nefndinni, hvor í sínu lagi. Ennfremur höfðu fulltrúar allra flokka, nema Sjálfstæðisflokks, lýst stuðningi við það grundvallarsjónarmið að gjaldtaka skyldi miðast við tímabundin afnot af fiskveiðiauðlindinni segir í yfirlýsingu Þorsteins Pálssonar. Þar segir ennfremur:

Eftir fund nefndarinnar 6. september síðastliðinn gerði ég ráðherra munnlega grein fyrir því að Sjálfstæðisflokkurinn væri ekki á þeirri stundu tilbúinn að fallast á að tímabundinn veiðiréttur skyldi vera grundvöllur gjaldtöku fyrir afnot af fiskveiðiauðlindinni. Um leið lét ég það álit mitt í ljós að tilgangslítið væri að halda áfram tilraunum til samkomulags um önnur atriði meðan sá flokkur sem fer með forystu fyrir ríkisstjórn opnaði ekki með ótvíræðum hætti fyrir lausn á þeirri forsendu. Þetta mat mitt er óbreytt. Að minni hyggju er tímabundinn afnotaréttur forsenda fyrir því að ná megi tveimur afar mikilvægum markmiðum í löggjöf um þessi efni: Annars vegar að lagareglurnar endurspegli með alveg ótvíræðum hætti sameign þjóðarinnar. Hins vegar að þær megi stuðla að sem mestri þjóðhagslegri hagkvæmni veiðanna.“

Fréttatilkynning sjávarútvegsráðuneytisins um slit á störfum nefndarinnar er svohljóðandi: „Með bréfi dags. 8. maí 2017 skipaði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, þverpólitíska sáttanefnd um gjaldtöku í sjávarútvegi. Nefndin var skipuð með erindisbréfi og vísan í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartrar Framtíðar, með það að markmiði að skila tillögum til ráðherrans í formi lagafrumvarps, eigi síðar en 1. desember 2017. Var öllum þingflokkum boðið að tilnefna einn fulltrúa sem sitja myndi fyrir þeirra hönd í nefndinni.

Yfirlýst markmið nefndarinnar var að tillögur hennar gætu orðið grundvöllur að þverpólítískri og víðtækri sátt í samfélaginu um sjávarútveginn og þar með grunnur að auknum stöðugleika í starfsumhverfi hans og tengdra greina til framtíðar. Var nefndinni ætlað að skila til ráðherrans tillögum þess efnis eigi síður en 1. desember 2017. Nefndin hélt níu formlega fundi frá 19. maí til 6. september.

Vegna þingrofs og kosninga hefur starfi nefndarinnar verið slitið. Af þeim sökum hefur Þorsteinn  Pálsson, formaður nefndarinnar skilað meðfylgjandi greinargerð um stöðu mála í nefndinni til ráðherra.“

 

 

Deila: