„Stöndum okkur ótrúlega vel“

Deila:

Íslenskur sjávarútvegur stendur sig mjög vel bæði í alþjóðlegu samhengi og í samanburði við önnur íslensk fyrirtæki, þrátt fyrir að búa við mun meiri kostnað en keppinautarnir erlendis. Þetta kom fram í erindi Þorsteins Más Baldvinssonar, forstjóra Samherja á Sjávarútvegsdeginum í Hörpu í síðustu viku.

Þorsteinn Már tók dæmi um samfélagsspor Samherja en fyrirtækið greiðir 7,5 milljarðar með beinum og óbeinum hætti til samfélagsins. Þar af er tekjuskattur 2,4 milljarðar og veiðigjöld 616 milljónir króna.

Hann taldi nauðsynlegt að hvetja ungt fólk til að mennta sig á þeim sviðum, sem nýtast sjávarútveginum. Hann benti á að tæp 90% ungmenna í framhaldsskólum vilji starfa tímabundið erlendis; Að 25% þeirra telji sjávarútveginn  mikilvægustu atvinnugreinina; að 2,3% sömu ungmenna vilji mennta sig í sjávarútvegi; Að 0.9% þessara ungmenna vilji starfa í sjávarútvegi.

Þorsteinn Már sagði að laun í íslenskum sjávarútvegi væru hærri en annars staðar enda vildi atvinnugreinin greiða samkeppnishæf laun. Vinnslustig í sjávarútveginum væri hátt og við sköpum meiri verðmæti úr þorski en aðrir. Þá séu íslenskar sjávarafurðir inni á mörgum verðmætustu afurðamörkuðum í heimi.

Þorsteinn Már lagði áherslu á að íslenskur sjávarútvegur þyrfti að fjárfesta til að standa sig í samkeppninni og hann þyrfti að laða til sín hæft starfsfólk.

Erindið má finna hér.

Deila: