Gumbófiskisúpa
Enn leitum við í einblöðungana af Bestu lyst eftir girnilegri uppskrift. Okkur finnst gott að reyna eitthvað nýtt og tengja saman matreiðslu frá framandi löndum og íslenskan úrvalsfisk. Þessi réttur á rætur sínar að rekja til New Orleans. „Súpan inniheldur fáar hitaeiningar, sérlega mikið af trefjum og er hjartavæn,“ segir í uppskriftinni. Og þá er bara að prufa:
Innihald:
10 dl fiskisoð
1 msk cajunkryddblanda
1 msk smjörvi
1 msk sólblómaolía
25 g hveiti
1 gul paprika
1 græn paprika
4 sellerístönglar
500 g ýsuflök, roðflett og beinhreinsuð
400 g hvítar eða rauðar nýrnabaunir úr dós
1 búnt vorlaukur
2 msk steinselja
1 tsk natríuskert salt
1 tsk nýmalaður pipar
Aðferð:
Fræhreinsið paprikur, merjið hvítlauk og skerið sellerístöngla í sneiðar. Blandið saman cajunkryddblöndu og fiskisoði.
Hitið smjörva í potti og stráið hveitinu saman við. Látið malla við vægan hita í 2 mínútur. Bætið grænmetinu saman við og látið malla í 5 mínútur. Þá er fiskisoðinu bætt út í og aftur látið malla í 5 mínútur.
Skerið fiskinn í litla bita og vorlaukinn í þunnar sneiðar. Bætið út í pottinn og látið malla í 5 mínútur.. Þá er baununum bætt saman við og látið malla í 3-5 mínútur eða þar til baunirnar hafa hitnað í gegn.
Stráið fínt saxaðri steinselju yfir súpuna rétt áður en hún er borin fram. Berið fram með grófu brauði.