Bergey kveður
Ísfisktogarinn Bergey VE landaði í síðasta sinn undir merkjum Bergs-Hugins í Vestmannaeyjum sl. sunnudag. Aflinn var 65 tonn, mest ufsi og karfi. Skipið fer væntanlega í slipp síðar í dag en það verður afhent nýjum eiganda í næstu viku. Það er Guðmundur Runólfsson hf. í Grundarfirði sem hefur fest kaup á skipinu.
Bergey var smíðuð fyrir Berg-Hugin í Gdynia í Póllandi árið 2007 og er skipið 486 brúttótonn að stærð. Systurskip Bergeyjar er Smáey VE sem áður hét Vestmannaey.
Ný Bergey er í smíðum í Noregi og verður hún afhent Bergi-Hugin síðar í þessum mánuði. Nýja Bergey er systurskip nýju Vestmannaeyjar sem kom til landsins í júlímánuði sl.
Tveir menn hafa verið í áhöfn Bergeyjar frá upphafi. Það eru Jón Valgeirsson skipstjóri og Ríkharður Stefánsson matsveinn. Heimasíða Síldarvinnslunnar ræddi við Jón og spurði hvort ekki væri erfitt að kveðja Bergeyna.
„Jú, blessaður vertu. Maður mun eiga góðar minningar um þetta skip. Ég var stýrimaður á Bergey frá upphafi til ársins 2014 en tók þá við sem skipstjóri og það hefur bara gengið vel. Skipið er afar vel heppnað í alla staði. Það hefur fiskast vel á það og það hefur farið vel með mannskapinn. Síðustu árin, eða eftir að Síldarvinnslan eignaðist útgerðina, hefur meiri kvóti verið til ráðstöfunar og það hefur alltaf tekist ágætlega að ná honum. Ég held að öll áhöfnin sakni skipsins en um leið eru menn fullir tilhlökkunar að taka á móti nýju skipi. Nýja Bergeyjan verður einkar glæsileg og það er alltaf gaman að fá nýtt skip í hendurnar,“ segir Jón.