Ætlar ekki að grípa inn í deiluna
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sjávarútvegsráðherra ætlar ekki að grípa inn í kjaradeilu sjómanna og útgerðarmanna með lagasetningu eða með breytingum á skattalöggjöf. Deiluaðilum hafi verið falin umsjá með auðlind þjóðarinnar og beri þá ábyrgð að semja.
Þetta sagði Þorgerður Katrín á Morgunvaktinni á Rás eitt í morgun. Aðspurð hvort hún hyggðist grípa inn í verkfall sjómanna og kjaradeilu þeirra við útgerðina sagði Þorgerður Katrín: „Finnst þér að ég eigi að koma með sértækar aðgerðir, og eins og sumir eru að leggja til, að niðurgreiða laun fyrir útgerðarmenn? Ég er því mótfallin. Ég er mótfallin sértækum aðgerðum.“
Hún sagðist reiðubúin til að koma að málinu með almennum hætti, til dæmis með því að styðja þær byggðir sem standa illa eftir tveggja mánaða verkfall sjómanna. „Þau sveitarfélög sem hafa byggt upp ábyrgt fiskeldi eru að koma betur út úr þessu sjómannaverkfalli heldur en önnur. Við erum að sjá erfiðleika hjá ákveðnum sveitarfélögum á Snæfellsnesi, fyrir norðan og fyrir austan, og mér finnst það vera að koma að hlutunum með almennum hætti, að styrkja þær byggðir.“
Með einkarétt á auðlind þjóðarinnar og bera því ábyrgð
Hún segir málið mjög alvarlegt. „Þetta er náttúrulega alvarlegt ef að tveir deiluaðilar, sem við erum búin að fela – þjóðin og ríkisvaldið – við erum búin að fela þessum aðilum að sinna auðlindinni. Menn eru með nýtingarrétt, í rauninni einkarétt á auðlindina, og þá verða menn einfaldlega að bera þá ábyrgð og axla þá ábyrgð að semja.“
Telur að útgerðin eigi að borga meira fyrir auðlindina
Þorgerður Katrín segir sjávarútvegskerfið í grundvallaratriðum gott, en vill bjóða upp kvótann. „Ég tel að útgerðin þurfi einfaldlega að greiða meira fyrir auðlindina.“
„Mín skoðun er eindregið sú að við eigum að leita leiða í gegnum uppboðið. Það er réttasta leiðin að því leyti að markaðurinn ræður þá því sem að útgerðin á að borga og ef að það gengur illa þá borgar hún minna og ef að það gengur betur þá tekur hún meiri þátt í að byggja upp innviði samfélagsins.“