Fiskeldið hefur stuðlað að raunverulegri viðspyrnu í byggðamálum

Deila:

Eftirfarandi pistill hefur verið birtur á heimasíðu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi:

Samkvæmt skilgreiningu orðabókar er byggðastefna „…sú stefna að stuðlað skuli eftir megni að jafnvægi í byggð landsins.“ Þessi skilgreining getur vart talist einhlít og hlýtur að velta á því frá hvaða bæjardyrum er horft. Hvað sem mönnum kann að finnast um skilgreiningar, jafnt sínar eigin og annarra, ætli megi þá ekki segja að byggðastefnu sé ætlað að efla byggð og atvinnulíf með sérstakri áherslu á jöfnun tækifæra allra landsmanna til atvinnu og búsetu, eins og segir í lögum um Byggðastofnun.

Hefur það tekist er rétt að spyrja og svarið er sennilega frekar nei en já. Í öllu falli stórfjölgar íbúum á höfuðborgarsvæðinu en sömu sögu er ekki hægt að segja af þróuninni á landsbyggðinni. Hefur þó ýmislegt verið reynt til að spyrna við fæti á svæðum þar sem íbúum hefur fækkað, með misgóðum árangri. Byggðastofnun gaf út skýrslu á dögunum um hagvöxt landshluta frá árinu 2008 til ársins 2016. Þar kemur fram að meðalaldur íbúa í Ísafjarðarkaupstað hækkaði á tímabilinu um 3 ár og er svipaða sögu að segja um aðra staði á norðanverðum Vestfjörðum. Öðru máli gegnir um sunnanverða Vestfirði en í skýrslunni segir orðrétt: „Meðalaldur er mun lægri á sunnanverðum Vestfjörðum, þar sem viðsnúningur hefur orðið, en þar fækkaði ungu fólki stöðugt fyrir nokkrum árum. Uppbygging í fiskeldi á stærstan þátt í breytingunni.“

Frá árinu 2008 til ársins 2017 jukust atvinnutekjur á Vestfjörðum um 7,3% að raunvirði, talsvert minna en að jafnaði í öðrum landshlutum. Langstærstan hluta aukningarinnar, eða um 65%, má rekja til fiskeldis. Ef það hefði ekki komið til, hefðu atvinnutekjurnar á Vestfjörðum einungis aukist um tæp 2,6%. Eru þá ótalin umtalsverð áhrif vegna afleiddra starfa.

Upphaf byggðaáætlanastarfs hér á landi má rekja til svo kallaðrar Vestfjarðaáætlunar frá árinu 1964, svo sem lesa má um í tímaritinu Sveitarstjórnarmál , 5. hefti frá árinu 1969. Þar skrifar Lárus Jónsson viðskiptafræðingur um byggðaáætlanir og sveitarfélögin. Eitt af því sem þar er nefnt er að búa verði til kerfi sem örvar og hvetur menn til þess að auka „…  fyrirverandi atvinnurekstur á þeim sviðum, sem það er hagkvæmt, eða stofna ný fyrirtæki og renna stoðum undir nýjar atvinnugreinar.“ Fiskeldi á Vestfjörðum er vaxandi atvinnugrein sem stuðlað hefur að raunverulegri viðspyrnu og fólki fjölgar á svæðinu. Yfirvöld ættu að taka slíkum breytingum fagnandi.

 

Deila: