Rammi kaupir Sigurbjörn í Grímsey

Deila:

Allt hlutafé sjávarútvegsfyrirtækisins Sigurbjarnar ehf. í Grímsey hefur verið selt. Aflaheimildir félagsins sem eru um 1.000 þorskígildistonn hverfa frá Grímsey. Um 9 manns starfa að jafnaði við fyrirtækið. Frá þessu er greint á ruv.is

Samkvæmt upplýsingum frá Ólafi Helga Marteinssyni framkvæmdarstjóra Ramma ehf. í Fjallabyggð hefur Rammi keypt allt hlutafé sjávarútvegsfyrirtækisins Sigurbjarnar ehf. í Grímsey. Kaupverð er trúnaðarmál og kaupsamningar gerðir með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins.

Gylfi Gunnarsson eigandi Sigurbjarnar ehf. vildi ekki ræða við fréttastofu þegar eftir því var leitað. Fyrirtækið hefur gert út þrjá báta og rekur fiskvinnslu í eynni. Um 9 manns starfa að jafnaði við fyrirtækið. Aflaheimildir fyrirtækisins eru 1.040.796 þorskígildistonn.

Árið 2017 var útgerðin Borgarhöfði ásamt kvóta seld burt úr eynni sem var mikið reiðarslag fyrir byggðina. Var því þá haldið fram að ef fleiri útgerðir hyrfu frá eynni myndi það gera út um byggð í Grímsey sem byggir allt sitt á fiskveiðum.

Grímseyingar hafa tekið þátt í verkefninu brothættum byggðum síðan sumarið 2015 en ekki hefur tekist að snúa íbúaþróun í eyjunni við. Í haust skoruðu eyjaskeggjar á Byggðastofnun og Akureyrarbæ að framlengja verkefnið. Í áskorun Grímseyinga segir að sérstakur byggðakvóti sem fylgi verkefninu sé jafnvel forsenda fyrir útgerð í eyjunni, útgerðirnar séu smáar og rekstur gangi erfiðlega.

Rammi hf. gerir út fjóra togara, rekur rækjuverksmiðju í Fjallabyggð og frystihús í Þorlákshöfn. Hjá fyrirtækinu starfa um 250 manns.

Á myndinni er Þorleifur EA, skip Sigurbjarnar í Grímsey.

 

Deila: