Makrílverð margfalt hærra í Noregi en hér

Deila:

Gífurlegur munur er á verði makríls til vinnslu hér á landi og í Noregi. Munar þar allt að 300% samkvæmt úttekt Verðlagsstofu skiptaverðs á tímabilinu 2012 til 2018. Verð á makríl til vinnslu, það bæði bræðslu og frystingar hefur á þessu tímabili verið frá tæpum 40 krónum á kíló upp í rúmar 50 krónur. Á sama tíma hefur það verið frá 125 krónum upp í 185 krónum í Noregi. Ef einungis er tekið verð frystingar hefur það verið frá 40 krónum upp í 54 hér, en í Noregi 125 til 185 krónur.

Nú í sumar hafa smábátar verið að fá um 100 fyrir kíló af makríl til vinnslu, en fyrstu verð fyrir ferskan makríl í Noregi hafa verið um 223 krónur íslenskar. Rétt er að nefna það að makrílvertíð Norðmanna hefst síðar en hér og er þá makríllinn feitari og verðmeira hráefni.

„Makríll hefur verið veiddur í miklu mæli við Ísland í meira en áratug. Makríllinn hefur ýmist verið veiddur af vinnsluskipum sem frysta aflann um borð og eða af öðrum skipum sem flytja aflann kældan sem hráefni til frekari vinnslu og bræðslu í landi. Eftirfarandi eru upplýsingar um meðalverð á makríl sem er landað til frekari vinnslu til manneldis í landi eða bræðslu og afurðaverð á helstu afurðaflokkum makríls,“ segir í úttekt Verðlagsstofu skiptaverðs. Þar segir ennfremur:

„Forsendur Verðupplýsingar makríls á Íslandi eru unnar upp úr vigtar- og ráðstöfunarskýrslum innsendum af aflakaupa til Fiskistofu. Aðeins eru notaðar upplýsingar frá fyrirtækjum á Íslandi sem kaupa afla (hráefni) í beinum viðskiptum af innlendum skipum og sem reka landvinnslu og bræðslu. Vinnsluskip og smábátar, flokkað undir „annað“, eru ekki tekin með. Eftirfarandi verðupplýsingar fyrir makríl í Noregi byggjast á upplýsingum frá Norges Sildesalgslag og eiga við um norsk skip sem landa makríl til frekari vinnslu eða bræðslu í Noregi. Meðalgengi (miðgengi) NOK/ISK er notað til að skipta yfir í íslenskar krónur.

Makríll óháð ráðstöfun

Á árinu 2018 er meðalverð á öllum makríl (til bræðslu og vinnslu) 294% hærra í Noregi en á Íslandi. Minnsti munur á milli landanna á tímabilinu var árið 2014 en þá var verðið 154% hærra í Noregi.

Á tímabilinu 2012 – 2018 er meðalverð á makríl til vinnslu að meðaltali 226% hærra í Noregi. Á árinu 2018 var mesti munur og var meðalverð 277% hærra í Noregi en á Íslandi. Á árinu 2014 var minnsti munur á milli landanna á tímabilinu og var verðið 143% hærra í Noregi en á Íslandi.

Á árinu 2017 er meðalhráefnisverð á makríl til bræðslu 10% hærra í Noregi en á Íslandi en það ár var minnsti munur á milli landanna á meðalhráefnisverði til bræðslu á tímabilinu. Á árinu 2018 eykst munurinn aftur og er meðalhráefnisverð til bræðslu þá 43% hærra í Noregi en á Íslandi. Yfir tímabilið er verð á makríl til bræðslu að meðaltali 21% hærra í Noregi.

Meðalverð á heilfrystum makríl og hausskornum makríl flutt út frá Noregi er um 18% hærra en meðalverð á sambærilegum afurðum útfluttum frá Íslandi. Mesti munur er árið 2016 en þá er meðalverðið 27% hærra á afurðunum frá Noregi en frá Íslandi. Noregur er 10% hærri árið 2017 sem er minnsti munur á tímabilinu.

Meðalverð á makrílflökum flutt út frá Noregi er að meðaltali 51% hærra en á makrílflökum sem flutt eru út frá Íslandi. Mesti munur er árið 2018 en þá er meðalverð 62% hærra á norskum afurðum.“

Deila: