Síldargleði

Deila:

Hinn 17. júlí árið 1958 var í fyrsta sinn tekið á móti síld til vinnslu í síldarverksmiðju Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Framkvæmdum við verksmiðjuna var ekki að fullu lokið en engu að síður þótti tímabært að fá hráefni til vinnslu og láta reyna á tækjabúnað. Gullfaxi NK kom með fullfermi af síld þennan dag og var aflanum landað í verksmiðjuna. Ekkert fór á milli mála að hér væri um tímamót að ræða og fögnuðu Norðfirðingar því að nú væri Neskaupstaður orðinn alvöru síldarbær.  Svo er sagt á heimasíðu Síldarvinnslunnar.

Mitt í þeirri gleði sem ríkti vegna tilkomu síldarverksmiðjunnar bar alvarlegan skugga á þennan fyrsta dag sem hráefni var landað í verksmiðjuna: Alvarlegt slys varð í hráefnisþróm hennar þegar þróarveggur brast. Ungur og efnilegur maður, Þorsteinn Jónsson, lét lífið í þessu slysi og sorgin skyggði á gleðistundina. Því miður er þetta ekki eina banaslysið í sögu Síldarvinnslunnar. Alls hafa tólf manns látist við störf hjá fyrirtækinu, þar af sjö í snjóflóðunum hörmulegu 20. desember 1974.

Þriðjudaginn 17. júlí nk. kl. 16.00 ætlar Síldarvinnslan að bjóða til stuttrar samkomu í Safnahúsinu í Neskaupstað. Á samkomunni verður fjallað um upphaf starfsemi fyrirtækisins fyrir 60 árum og gerð grein fyrir samkeppni um fyrirhugaðan minningarreit á grunni gömlu síldarverksmiðjunnar. Mun reiturinn verða helgaður öllum þeim sem látið hafa lífið í starfi hjá Síldarvinnslunni. Gert er ráð fyrir að gamli gufuketillinn, sem enn stendur á grunninum, verði hluti af minningarreitnum. Aðstandendum þeirra sem farist hafa í starfi hjá fyrirtækinu er sérstaklega boðið á samkomuna en eins eru allir núverandi og fyrrverandi starfsmenn fyrirtækisins velkomnir.

 

Deila: