Vestmannaey fiskar vel

Deila:

Ísfisktogarinn Vestmannaey VE hefur fiskað vel að undanförnu. Skipið landaði fullfermi í Eyjum sl. fimmtudag og aftur í gærmorgun. Aflinn er mest þorskur og ýsa. Veitt hefur verið suður af landinu, á Öræfagrunni, Meðallandsbugt, Pétursey og Víkinni. Í þessum tveimur síðustu veiðiferðum hefur fullfermi fengist á tveimur og hálfum sólarhring.

Síðustu ár hafa Vestmannaeyjaskipin Vestmannaey og Bergur (áður Bergey) hafið veiðar austur af landinu í byrjun septembermánaðar en nú er veitt fyrir sunnan land eins og áður segir. Svo virðist vera að fiskurinn hafi nóg að éta suður af landinu og haldi sig því þar. Sjómennirnir telja að brotthvarf makrílsins þaðan hafi mikið að segja og sandsílið hafi þar náð sér vel á strik eftir að makríllinn hætti að ganga í ríkum mæli með suðurströndinni, en sandsílið er mikilvæg fæða botnfisks.
Vestmannaey VE hefur fiskað vel að undanförnu. Ljósm. Egill Guðni Guðnason

 

 

Deila: