„Strembnara en ég á von á“

Deila:

Ísfisktogarinn Helga María AK er nú á heimleið eftir umfangsmikið rannsóknaverkefni við Vestur-Grænland á vegum Náttúruauðlindastofu Grænlands. Von er á togaranum heim seint í eða snemma á morgun en þá verður liðinn 81 dagur síðan að lagt var upp frá Reykjavík.

,,Verkefnið tókst vel. Það var skemmtileg en mun strembnara en ég átti von á,“ sagði Heimir Guðbjörnsson skipstjóri á Helgu Maríu er heimsíða Brims náði tali af honum. Skipið var þá enn við vesturströnd Grænlands en nálgaðist Hvarf, syðsta odda landsins.

Rætt var við Heimi fyrr í sumar en þá var skipið í höfn í Ilulissat á vesturströnd Gænlands. IIlulissat er á rúmlega 69°N, inn af Diskóflóa og í nágrenni Ísfjarðar en svo nefnist fjörðurinn þar sem risastór skriðjökull gengur út í sjóinn. Stærðar borgarísjakar brotna stöðugt úr skriðjöklinum og er fjörðurinn og næsta nágrenni fullt af hafís.

,,Við vorum við rækjurannsóknir þarna fyrir utan og það var vandkvæðum bundið að finna togslóð vegna þess hve mikil firn voru af hafís á þessum slóðum. Hins vegar var ekki mikið um ísjaka úti á sjálfum Diskóflóa en heimamenn og staðkunnugir töluðu um að þetta hafsvæði hafi verið ófært í fyrra sökum mikils hafíss. Við þurftum þó alltaf að hafa varan á vegna hafíss. Stórir borgarísjakar ollu engum erfiðleikum, enda komu þeir vel fram á ratsjá, en minni jakar, sem möruðu að mestu leyti í kafi, voru hættulegastir skipaumferð. Annars hjálpaði það mikið að veðrið var gott í allt sumar en þoka gerði okkur þó stundum erfitt fyrir.“

Að sögn Heimis voru farnir þrír 12 til 20 daga langir rækjutúrar og tveir grálúðutúrar í þessu rannsóknaverkefni og var seinni grálúðutúrinn farinn í kanadískri lögsögu í samvinnu við kanadísk yfirvöld. Í þeim túr var farið allt norður á 72°30´N.

,,Rækju- og grálúðuhluti verkefnisins kom mér ekki á óvart heldur hvað umfangið var mikið að öðru leyti. Við drógum t.d. videósleða á eftir skipinu og það var tekið mjög mikið af myndum af hafsbotninum. Þá vorum við með sérstakan plóg til að safna jarðvegssýnum af botninum,“ segir Heimir en hann segist ekki vita hvort framhald verði á þátttöku Helgu Maríu í verkefninu. Vilji virðist fyrir því hjá þeim sem stjórna rannsóknaverkefninu í Grænlandi og Kanada en eftir eigi að koma í ljós hvort Brim má við því að missa skipið úr rekstri næsta sumar.

,,Við höfum sett stefnuna á Reykjavík og það verður gott að komast heim. Við erum með mikið af búnaði um borð sem geymdur verður þar til næsta sumar. Við erum með tvö rækjutroll og tvö grálúðutroll hér á dekkinu, rock-hopperalengju og auka toghlerapar svo eitthvað sé nefnt,“ segir Heimir Guðbjörnsson.

Deila: