Makríllinn fyrir vestan á eftir að skila sér

Deila:

,,Það hefur verið lítið að hafa síðustu tvo dagana og menn hafa eytt tímanum í leit. Það er þó aðeins tímaspursmál hvenær veiðin glæðist á nýjan leik því það á töluvert magn af makríl eftir að skila sér hingað austur að vestan,“ segir Róbert Axelsson, skipstjóri á Venusi NS í samtali á heimasíðu HB Granda. Skipið kom til Vopnafjarðar snemma í gærmorgun með um 800 tonna afla.

,,Það er kominn sá tími að síldin er farin að verða meira áberandi á miðunum en við reynum enn að einbeita okkur að makrílnum og sneiða í lengstu lög hjá síldinni. Það virðist vera lítið mál að finna síld hér fyrir austan um þessar mundir en hennar veiðitími er ekki kominn ennþá,“ segir Róbert en þótt reynt hafi verið að forðast síldina er hluti aflans nú ágæt síld. Stærðin á makrílnum hefur hins vegar verið með vænsta móti og algeng meðalvigt í prufum upp á síðkastið er þetta 480-500 grömm og jafnvel meiri.

,,Við enduðum þennan túr í kantinum djúpt úti af Héraðsflóa og syðst fórum við suður í Berufjarðarál. Makrílveiðin var farin að tregast þegar við héldum áleiðis til lands og mér skilst á öllu að skipin hafi verið að leita að makríl í dag. Það er þó, að mínu mati, engin ástæða til að láta hugfallast. Það hefur verið mikið af makríl fyrir vestan og sá fiskur á að stórum hluta eftir að skila sér hingað austur,“ segir Róbert Axelsson.
 

 

Deila: