Erum að fara að hífa í Seyðisfjarðardýpinu

Deila:

Síðustu tvo til þrjá sólarhringa hefur nánast engin makrílveiði verið fyrir austan land. Makríllinn hefur verið á hraðri austurleið að undanförnu og er Beitir NK núna búinn að elta hann í Smuguna. Bjarni Ólafsson AK hefur hins vegar snúið sér að síldinni á Austfjarðamiðum eftir að hafa leitað þar að makríl án árangurs.

Heimasíða Síldarvinnslunnar sló á þráðinn til Gísla Runólfssonar skipstjóra á Bjarna Ólafssyni í morgun og innti hann frétta. „Hér er engan makríl að hafa eins og er enda hefur hann verið á hraðri austurleið að undanförnu. Þessi fiskur fer svo hratt yfir að það er með ólíkindum, en það á ábyggilega eftir að koma meiri makríll að vestan, spurningin er bara hvenær. Í hitteðfyrra vorum við að veiða makríl í Smugunni á þessum árstíma þannig að þetta á ekkert að koma mönnum mikið á óvart. Við snerum okkur að síldinni í bili og hér er töluvert af síld á grunnunum. Við erum komnir með hátt í 600 tonn í tveimur holum og erum að fara að hífa hér í Seyðisfjarðardýpinu. Ég reikna með að við verðum í Neskaupstað í dag,“ sagði Gísli að lokum.
Ljósmynd Hákon Ernuson.

 

Deila: