Hefur áhyggjur af stöðu fiskverkafólks

Deila:

Magnús Már Jakobsson, formaður Verkalýðsfélags Grindavíkur, hefur áhyggjur af stöðu fiskverkafólks, sem er á atvinnuleysisbótum vegna verkfalls sjómanna. Hann bendir á að sjómenn og útgerðarmenn eigi eftir að ná þeim tekjum til baka, sem tapast hafa nú, þegar veiðar hefjast á ný. Hið sama eigi ekki við um fiskverkafólkið. Það nái ekki til baka þeim mismun sem er á milli tekna og atvinnuleysisbóta, þegar verkfalli lýkur. Fyrir vikið eigi margt fiskverkafólk í umtalsverðum tímabundnum erfiðleikum við að standa við fjárhagslegar skuldbindingar sína, til dæmis vegna kaupa á húsnæði.

Magnús Már ritar eftirfarandi áminningu á fésbókarsíðu sína í tilefni stöðunnar:

„Ágætu útgerðarmenn gerið þið ykkur grein fyrir því hvernig þið eruð að fara með ykkar fólk í fiskvinnslunni sem þið hafið sent heim og látið okkur alþýðu landsins borga laun þeirra á meðan þið deilið við sjómennina ykkar og hafið ekki einu sinni manndóm í ykkur til að ræða við hvað þá annað. Fiskvinnslufólkið sem unnið hefur hjá ykkur mörg hver í fjölda ára og staðið með ykkur í gegnum súrt og sætt. Þau mættu í bílförmum á austurvöll til að standa með ykkur.

Núna standið þið í deilum við sjómenn og eitt af því fyrsta sem þið gerið er að segja upp þessu fólki og setja það á atvinnuleysisbætur. Hvað möguleika hefur þetta fólk og hvað gerist þegar verkfallið leysist. Það hafa margir haft samband við mig undanfarna daga þar sem þau eiga ekki fyrir mat og skuldum. Sum hver eru að missa húsin sín á uppboð og eru með visakortið í toppi vegna tekjumissis út af deilu sem þau eru ekki aðilar að. Þetta góða starfsfólk ykkar verður í mjög langan tíma að rétta úr kútnum . Ágætu útgerðamenn sýnið ykkar fólki allavega þá virðingu að reyna að leysa þessa deilu. Við ykkur kæru sjómenn vill ég segja að vonandi fara ykkar mál að leysast.“

Deila: