Hörmungarstaða
„Það er hörmungarstaða í greininni,“ segir Ragnar Hjörtur Kristjánsson, framkvæmdastjóri Fiskmarkaðs Suðurnesja. Hjá fiskmarkaði Suðurnesja voru seld 812 tonn í janúar á móti 1800 tonnum á sama tíma í fyrra. Þetta gerir samdrátt upp á 1000 tonn. Ástæðan er sjómannaverkfall sem er farið að hafa mikil árhrif víða í greininni og kemur við marga. Þetta kemur fram í Víkurfréttum.
Ragnar segir verkfall sjómanna víða hafa áhrif. Auk fiskverkafólks þá hafi verkfallið meðal annars áhrif á löndunarþjónustur og flutningafyrirtæki. Þó svo starfsfólk í fiskvinnsluhúsum hafi verið sagt upp og það sett á atvinnuleysisbætur, þá geti til að mynda fiskmarkaðirnir ekki gert slíkt. Smábátar hafa verið að landa í Sandgerði og þá þurfi að þjónusta frá markaðnum.
„Við tökum þá ákvörðun að halda okkar fólki áfram í vinnu þó það sé ekki mikið fyrir mannskapinn að gera,“ segir Ragnar. Hann segir mikla hættu á að missa menn með meiraprófið í önnur störf verði þeim sagt upp og nefnir Keflavíkurflugvöll sem dæmi, en þar er kallað eftir starfsfólki með aukin ökuréttindi.
Þar sem framboð á fiski er mun minna nú vegna verkfalls sjómanna þá hefur verðið farið hækkandi. Ragnar segir að þau 812 tonn sem Fiskmarkaður Suðurnesja seldi í janúar hafa að mestu farið til fiskvinnslustöðva sem eru að finna ferskan fisk fyrir erlenda viðskiptavini. Það vekur athugli þegar farið er um hafnarsvæðið í Sandgerði að þar er mikið magn fiskikara. Nú standa um 3000 kör við hafnarhúsið og ísverksmiðjuna við höfnina. Það er þó eingöngu 3% þeirra fiskikara sem Umbúðamiðlun er með í umferð á landinu öllu.