Aukinn sveigjanleiki í nýju siglingakerfi Samskipa

Deila:

Siglingar með strönd Íslands, auk tengingar við Noregsmarkað, leggja grunninn að nýrri flutningsleið innan kerfis Samskipa allt til Eystrasalts. Siglingar hófust um miðjan mánuðinn og hefur verið vel tekið. Gámaflutningar leika æ stærra hlutverk í uppsjávarfiski.

Siglingar á nýrri leið Samskipa með vörur inn í Eystrasalt hófust núna um miðjan ágúst. Gunnar Kvaran, framkvæmdastjóri útflutningssviðs Samskipa, segir nýrri þjónustu hafa verið afar vel tekið. Samspil við nýtt siglingakerfi Samskipa, sem tekið var upp síðasta haust, auki líka enn frekar möguleika á flutningi vöru þarna austur eftir í Evrópu líkt og hafi sýnt sig á yfirstandandi makrílvertíð.

„Á heimsvísu hefur þróunin í flutningum verið yfir í gámaflutninga frá svokölluðum „bulk“-flutningum og frystiskipum. Við höfum lagst á árarnar í þessari þróun með uppsetningu gámaflutningskerfis sem sinnir bæði Íslandi og Noregi með flutninga til og frá Eystrasaltsmarkaðnum, um hafnirnar í Gdansk í Póllandi og Klaipeda í Litháen,“ segir Gunnar, en um er að ræða stærstu hafnirnar sem sjávarútvegi standa til boða í austur Evrópu á meðan Rússland er enn lokað Noregi og Íslandi.

80 þúsund tonn frá Íslandi

“Þessar siglingar vekja lukku og við erum að taka makríl í góðum mæli í þetta nýja kerfi okkar,” segir Gunnar Kvaran.

Undirbúningur segir hann að hafi staðið yfir um nokkurt skeið, en bæði hafi þurfi að vinna nýja markaði, koma á tengingum við vöruhús og frystigeymslur og svo kortleggja bæði og greina vöruflutninga inn í Eystrasaltið frá Íslandi og Noregi. „Og í ljós kemur að það eru tölur sem hlaupa á tugum þúsunda. Bara frá Íslandi eru flutt um 80 þúsund tonn inn á þessi svæði, en uppistaðan í því eru uppsjávarafurðir, síld, makríll og loðna, þótt hún telji ekki í ár vegna loðnubrestsins.“ Gunnar segir að fram til þessa hafi tiltölulega lítill hluti þessara flutninga verið í gámum. „En í því sjáum við tækifæri til vaxtar. Við höfum boðið þessa þjónustu í gegn um árin og höfum til að bera þá þekkingu og sérhæfingu sem þarf.“

Gunnar segir að fram til þessa hafi flutningur á vörum inn í Eystrasalt liðið fyrir fjarlægðina, því skip í siglingum héðan megi ekki vera lengur en 14 daga í hringferð sinni. Núna er vörum safnað víðs vegar um landið í strandsiglingum Samskipa áður en þeim er komið á svonefnda Norðurleið frá Íslandi til Cuxhaven í Þýskalandi. Þar er svo tenging við siglingar Samskipa á tveimur skipum austur til Gdansk í Póllandi og Klaipeda í Litháen.

Gámar fara betur með vöruna

Áður hafi verið gerðar tilraunir með samstarf við önnur flutningsfyrirtæki til að flytja vörur inn á svæðið en það hafi ekki reynst vænlegur kostur þegar upp var staðið. Með flutningi innan eigin kerfis, þar sem varan fer með Samskipum alla leið, geti félagið keppt bæði í hagkvæmni og flutningshraða, með auknum áreiðanleika og betri vörumeðferð.

„Þeirri þróun að geta sett sjávarafurðir beint í innsiglaðan gám á eigin svæði, í stað þess að setja afurðina beint inn í frystiskip með þeirri vörumeðhöndlun sem þar fæst, er vel tekið á markaðnum,“ segir Gunnar. Með þessu sé minna um tjón og betri meðhöndlun skili sér svo í betra verði fyrir afurðirnar á áfangastað. Þá spili inn í að margar stærri útgerðir séu nú með eigin frystigeymslur og kjósi fremur að setja afurðir sínar í smærri skömmtum á markað en áður þegar kannski voru send út 2.000 tonn í einu. „Fyrir tíu, fimmtán árum gátu menn þetta ekki, því þá voru ekki til þessar frystigeymslur.“

„Þessar siglingar vekja lukku og við erum að taka makríl í góðum mæli í þetta nýja kerfi okkar. Við nýtum líka sveigjanleikann í strandsiglingunum með viðkomum á staði utan fastsettra áfangastaða á leiðinni. Til dæmis höfum við á yfirstandandi makrílvertíð haft viðkomur á höfnum utan leiðakerfisins, gagngert til að sækja afurðir og koma þeim til Reykjavíkur þar sem þeim er umskipað til útflutnings.“

Með Noregi gengur dæmið upp

Með vikulegu strandferðakerfi hafa Samskip þannig komið upp söfnunarkerfi sem Gunnar segir að þurfi fyrir siglingarnar til Eystrasaltsins. Það sé vegna þess að stór hluti þessara 80 þúsund tonna sem fari til Austur-Evrópu séu unnin á stöðum sem ekki hafi haft aðgang að gámaflutningum, svo sem Vopnafirði, Þórshöfn og fleiri stöðum. „Þar hefur reynst dýrt að aka í gámum til Reyðafjarðar sem er útskipunarhöfnin. Sveigjanleikinn í nýju siglingakerfi Samskipa sem tekið var upp síðasta haust er grunnurinn að því að geta boðið flutninga frá nánast hvaða höfn sem er á Íslandi, inn á þessi ríki, í gámum okkar og skipakerfi okkar alla leið. Það er ákveðin sérstaða,“ segir Gunnar.

Um leið segir hann ekki mega gleymast að um leið opnist dyr fyrir mjög mikinn innflutning frá þessum svæðum. „Frá Póllandi og Litháen kemur mikið magn af vöru til byggingaframkvæmda og annarri almennri innflutningsvöru. Og áfram gildir það sama að þegar við höfum flutninginn í okkar eigin kerfi alla leið þá er yfirsýnin betri og áreiðanleikinn meiri um leið og geta Samskipa í samkeppni eykst til muna í innflutningi frá Eystrasaltinu til Íslands.“ Samhliða opnist svo nýjar dyr fyrir Noregsströndina þar sem sami ávinningur bjóðist af þessum siglingum bjóðist Norðmönnum, allt norður til Holla, Álasunds og Bergen á vesturströnd Noregs. „Þar er Ósló-svæðið líka undir, og inn- og útflutningur á fiski. Svo aukast náttúrlega líka möguleikar í innflutningi frá Noregi til Íslands með þessum tengingum og aldrei að vita hverju þeir skila þegar fram í sækir.“

Gunnar segir tenginguna við Noreg ákveðinn lykil að því að siglingarnar gangi upp, því með magninu milli Íslands og Eystrasaltsins hafi ekki tekist að keyra svona kerfi.

Makrílvertíðin í hámarki

Auk vaxtarmöguleika tengdum útflutningi sjávarafurða þá ýti kerfið líka undir vöruflutninga til baka. „Vörur frá Póllandi eða Litháen hafa alla jafna komið hingað í gegn um Þýskaland eða Rotterdam, en núna verður til möguleiki á að safna vörum inn til Íslands í gegn um Klaipeda og að maður tali nú ekki um Gdansk, þar sem við erum með okkar eigin skrifstofu. Um leið sparast aksturs- og lestarkostnaður yfir til Rotterdam.“

Gunnar segir líka lykil að því að samspilið við Noreg gangi upp að vertíðir í fiskinum skarist ekki. „Núna er makríll á Íslandi, en veiðar ekki farnar af stað í Noregi. Við erum þarna með tvo ólíka markaði hvað varðar framleiðslu. Núna byrjum við á fullu að selja makríl inn á þessa markaði og svo tekur Noregur við. Sama hegðun á svo við í síldinni og loðnunni, þetta kemur hvað á eftir öðru.“

Hvað varðar áhrif loðnubrestsins í ár þá segir Gunnar hann hafa verið erfiðan fyrir allan markaðinn og þá líka flutningsaðila á borð við Samskip. „En síðan komu jákvæðar fréttir og aukning í makrílkvóta Íslendinga.“ Vertíðunum fylgi svo alltaf stemning og umsvif sem skemmtilegt sé að fást við. „Núna snúast öll okkar áform og áætlanir um að flytja út makríl. Vertíðin stendur hvað hæst þessa dagana og við í mjög góðum takti. Skipin eru full á útleið og það er gaman. Svo er náttúrlega atgangur við að skipuleggja vikurnar fram undan og sjá til þess að um allt land sé til reiðu sá viðbúnaður sem þarf til að taka á móti aflanum.“

Með nýju siglingakerfi og aukinni hlutdeild gámaflutninga segir Gunnar að vertíðirnar í sjávarútveginum farnar að tengjast meira saman á útflutningshliðinni. „Eftir makrílinn tekur síldin við og svo vonandi loðnuvertíð aftur í janúar. Síðan er það kolmunni og þar fram eftir götum. Með þessu nýja kerfi verður síldarvertíðin, sem verið hefur meira í „bulk“ flutningum, áhugaverðari fyrir okkur. Núna höfum við öll tæki og tól sem þarf til að gámavæða þessa flutninga.“

 

Deila: