Þrengt að smábátum í Reykjavíkurhöfn
Eigendur smábáta í Reykjavík hafa áhyggjur af framtíð smábátaútgerðar frá Reykjavík. Þeir vilja lækkun veiðigjalda, frjálsar makrílveiðar og að strandveiðar verði leyfðar fjóra daga í viku fjóra mánuði á ári. Þetta kom fram á aðalfundi Smábátafélags Reykjavíkur sem fór fram í höfuðstöðvum félagsins í Suðurbugt þann 22. september sl.
Í ávarpi formanns, Þorvaldar Gunnlaugssonar, kom meðal annars fram að félagsmenn hefðu áhyggjur af framtíð smábátaútgerðar frá Reykjavík. Stöðugt væri verið að þrengja að aðstöðu þeirra í höfninni. Ferðaþjónustan væri þar fyrirferðamest og svo virtist vera að stjórnendum Reykjavíkurhafnar væri mjög umhugað að uppfylla allar þeirra kröfur.
Þorvaldur hvatti félaga sína að standa á rétti sínum varðandi hafnaraðstöðuna, sem verið hefði frá upphafi byggðar í Reykjavík.
Á fundinum voru tekin fyrir þau mál sem brenna hvað mest á smábátaeigendum. Veiðigjald, strandveiðar, makrílveiðar og krafa stærri útgerða innan krókaaflamarks um afnám veiðarfæratakmarkana hjá krókaaflamarksbátum. Kynnt var bréf þess efnis til LS frá Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu þar sem óskað er umsagnar við beiðni þar um. Skemmst er frá því að segja að krafan lagðist illa í félagsmenn sem lögðust gegn öllum slíkum hugmyndum. Kerfið væri skýrt afmarkað með heimild til notkunar þeirra veiðarfæra sem sköpuðu veiðiheimildir í því – línu og handfærum. Bent var á að þeir sem vildu fara á troll, dragnót eða net væri í lófa lagið að skipta um veiðikerfi, láta frá sér heimildir í krókakerfinu og hasla sér völl í aflamarkskerfinu.
Eftirfarandi ályktanir voru samþykktar:
- Lækkun veiðigjalda
- Veiðigjöld af leigukvóta verði greidd af þeim sem á kvótann en ekki þeim sem leigir
- Frjálsar makrílveiðar hjá smábátum
- Mótmælt er hugmyndum um netaveiðar krókabáta og sameiningu kerfanna
- Þeir sem landa á fiskmarkað fái afslátt af veiðigjöldum
- Strandveiðar 4 dagar í viku í fjóra mánuði á ári.
Þorvaldur Gunnlaugsson var endurkjörinn formaður Smábátafélags Reykjavíkur. Auk Þorvaldar skipa stjórnina eftirtaldir:
Arthur Bogason
Guðmundur Jónsson
Jón Fr. Magnússon
Páll Kristjánsson