„Fæddur og uppalinn á Fjöllunum“

Deila:

Aflabrögðin hjá ísfisktogurum HB Granda hafa verið mjög góð að undanförnu hvort heldur sem sótt hefur verið á Vestfjarðamið eða á heimamið togaranna út af Reykjanesi. Sem dæmi um aflabrögðin má nefna að Ásbjörn RE kom til hafnar sl. mánudagskvöld  með um 130 tonna afla eftir rúmlega fjögurra sólarhringa úthald.

,,Við byrjum túrinn með veiðum á Halamiðum. Þar lentum við í ufsaskoti og svo var þorskveiðin einnig mjög góð. Þetta var allt góður fiskur, fínn milliufsi og ágætur þorskur,“ segir Friðleifur Einarsson, skipstjóri á Ásbirni. Hann segir að frá Vestfjarðamiðum hafi verið haldið suður á Fjöllin eða á hefðbundin heimamið togara HB Granda.

,,Það liggur við að maður sé fæddur og uppalinn á Fjöllunum enda hef ég stundað þar veiðar frá því að ég fór fyrst til sjós. Það er gott ástand á gullkarfastofninum og við vorum því fljótir að ná því magni sem vantaði upp á fullfermi,“ segir Friðleifur en það styttist nú í að hann og áhöfn hans færi sig yfir á nýsmíðina Engey RE.

,,Vonandi verður búið að ganga frá lestarkerfinu og millidekkinu í næstu viku. Eftir það munum við taka ný veiðarfæri um borð en það tekur okkur að hámarki tvo daga að gera skipið sjóklárt,“ segir Friðleifur Einarsson.
 

 

Deila: