Fjölþætt og ný tækifæri

Deila:

„Fiskeldi er þekkingargrein sem veitir ungu fólki fjölþætt og ný tækifæri í byggðum landsins. Á komandi árum getur hún orðið mikilvægur þáttur verðmætasköpunar í landinu og ein meginstoðin í atvinnulífi jafnt austanlands og vestan. Það er og verður hlutverk stjórnvalda að skapa henni gott rekstrarumhverfi líkt og er keppikefli í þeim löndum þar sem fiskeldi er stundað.“ Svo segir í ályktun aukaaðalfundar Landssambands fiskeldisfyrirtækja, sem haldinn var nú í vikunni. Í ályktun fundarins segir ennfremur:
„Fiskeldi á Íslandi er orðin öflug atvinnugrein sem miklar vonir eru bundnar við. Um fiskeldið gilda skýr lög og reglur en þrátt fyrir verulegar fjárfestingar í greininni hefur uppbygging hennar verið hæg. Einungis er unnt að stunda fiskeldi í sjó við lítinn hluta strandlengjunnar. Óhætt er því að segja að beitt er ítrustu varúðarnálgun við leyfisveitingar. Frá því að ný lög um fiskeldi tóku gildi í ársbyrjun 2015 hefur einvörðungu verið veitt eitt leyfi til fiskeldis í sjó og var þar um að ræða stækkun á áður út gefnu leyfi.

Einn helsti próteingjafinn

Fiskeldi er einn helsti próteingjafi í heiminum í dag. Meiri fiskur er nú framleiddur í eldi, en svarar til alls fiskveiðiafla í heiminum. Ljóst er að aukinni fæðuþörf í mannkyns verður ekki mætt nema með auknu fiskeldi. Því er það svo að allar þjóðir sem geta stundað fiskeldi, svo sem hér við Norður Atlantshaf, hvetja til og kosta kapps um að styðja við aukna fiskeldisframleiðslu. Ísland getur vitaskuld ekki orðið undantekning frá þeirri reglu.

Íslensk fiskeldisfyrirtæki vilja vera í fararbroddi
Miklar framfarir hafa orðið á öllum sviðum fiskeldis á undanförnum árum. Fyrirséð er að sú þróun mun halda áfram. Íslensk fiskeldisfyrirtæki vilja vera í fararbroddi þegar kemur að búnaði, öryggiskröfum og þróun nýrrar tækni á fiskeldissviðinu. Á undanförnum árum hafa fiskeldisfyrirtækin lagt fram verulega fjármuni til fjölþættra vísindalegra verkefna hér á landi.

Jákvæð samfélagsáhrif

Þó fiskeldisframleiðslan hér á landi sé enn afar takmörkuð, hafa jákvæð samfélagsleg áhrif hennar komið skýrt í ljós. Má þar nefna fjölda nýrra starfa, umtalsverðar skattgreiðslur til ríkis og sveitarfélaga og fiskeldið hefur getið af sér margvíslega sprotastarfsemi og afleidd störf.

Hefur skapað verðmæt og fjölbreytt störf

Fiskeldið hefur skapað verðmæt og fjölbreytt störf, einkanlega á landssvæðum sem hafa átt undir högg að sækja í byggðalegu tilliti. Ekki síst í þessum byggðum eru bundnar miklar vonir við frekari uppbyggingu og er því mjög mikilvægt að ekki verði brugðið fæti fyrir hana. Eðlilegt er að hraðað verði útgáfu frekari leyfa, án þess þó að slegið sé af faglegum kröfum. Fráleitt er allt tal um að hægja á leyfisveitingum með pólitískum eða stjórnsýslulegum tilskipunum, í blóra við gildandi lög. Enda er vandséð hvernig unnt er að hægja á þegar fyrir liggur að útgáfa leyfa undanfarin ár hefur verið nær engin.“

 

Deila: